fimmtudagur, ágúst 30, 2007

Á sjónvarpsstöðinni Sirkus í kvöld - samkvæmt dagskrá:

20:10 Skins (1:9)
Átakanleg bresk sería um hóp unglinga sem reynir að takast á við daglegt líf í skugga átröskunar, eiturlyfjaneyslu og fleiri vandamála sem steðja að unglingum í dag. 2006.


Huh. Ég er ekki vön að horfa á unglingaþætti en ég hafði mjög gaman af þessum. Og "átakanleg" er ekki beint orðið sem ég mundi nota til að lýsa Skins. Kannski fjörug? Gráglettin? Beinskeitt? Raunsæ? Kjánaleg? Barnaleg? Óraunsæ? Allt af þessu. Fyrst og fremst skemmtileg. A.m.k. kannaðist mitt aldna hjarta við margt sem átti sér stað þarna - þótt það hafi oftast verið úr fjarlægð - og hafði gaman af. Ef fullorðið fólk hefur það fyrir prinsip að horfa ekki á neitt sem fjallar um fólk undir tvítugu þá ætti það sennilega að láta þessa þætti frjamhjá sér fara - en ef ekki þá mæli ég hiklaust með þeim.

þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Ég skellti Ástríki í smá andlitslyftingu - enda löngu kominn tími til. Hönnunin á síðunni síðast uppfærð árið 2000. Hún var svona - en er orðin svona. Endilega kíkið og segið mér hvað hún er ógisslega fín :)

Skellti mér í heimsókn til Nönnu í gær og missti allt tímaskyn yfir Carcassonne. Kom ekki heim fyrr en um hálf tvö og þurfti þá að klára bók áður en ég gat farið að sofa. Augnlokin gera sitt besta við að sleikja hnéskeljarnar í dag og heilinn nennir ekki taka þátt í þessari bloggvitleysu.

miðvikudagur, ágúst 22, 2007

Þessi kona á skilið Thule

Ég er með framkvæmdahiksta. Ekki veiki, ekki maníu, ekki áráttu - bara smá hiksta sem lýsir sér litlum framkvæmdarhvellum sem eru svo yfirstaðnir um leið og dágóður tími í þann næsta. Ég geri mikið af því að bretta upp og niður ermar þessa dagana.

Mér varð ekkert úr verki í gær en ákvað að "gera eitthvað í þessu" núna í kvöld og koma upp hillunum sem ég keypti í svefnherbergið. Til þess þurfti ég að bora. Ekkert mál - ég hef svosem borað áður - boraði saman allt garðshliði. Pabbi hafði látið mig fá forláta borvél - risastóra, illvíga og svarta á lit með aukahandfangi til að styðja sig á í gegnum mestu brestina og ekkert helvítis batterí bara beint í innstungu. Ég átti ekki von öðru en að þetta yrði létt verk.

Ég skipti um skoðun þegar skrímslið liðaðist í sundur í höndunum á mér á fullri ferð. Steinninn í veggjunum sem svo svakalega harður að ég kom bornum aðeins sentimetra inn í vegginn með venjulegum þrýstingi. Þannig að ég lagðist á hana og gaf í. Úff. Handfangið losnaði frá svo og borinn úr vélinni og einhver stykki flugu eitthvert og ég henti henni frá mér til að forða slysi. Gerist á ca. tveimur sekúntum.

Það fyrsta sem ég hugsa er: "Sjitt - ég er kvenmaður. Kvenmaður sem kann ekki að bora."

Ég leita út um allt að stykkinu sem hvarf (og hefur þá fúnksjón að festa borinn við borvélina) en finn ekki. Sé mig nauðbeygða til að hringja í pabba og segja farir mínar frekar ósléttar. Hann er ekki hissa - en ekki á minni vanhæfni! Borvélin sem hann gaf mér var víst eldgömul, ódýr og frekar vafasöm að uppruna. Hann var að vonast til þess að hún mundi "duga". Hah! Húsið mitt var byggt árið 1938 - á meðan menn kunnu enn að blanda sement og munaði ekki um að skella í terrazzo gólf á göngunum - ólíkt hripleku og útsprungnu bónushjöllunum sem voru steyptir á áttunda áratugnum og flestir miðaldra foreldrar þessa lands búa í. Ég fæ almennilega vél lánaða á morgun og nú fé ég mér bjór. Því ég á það svo sannarlega skilið.

Skál.

Með honum ætla ég svo að horfa á þáttinn sem segir frá því þegar menn voru alvöru menn með áfengissýki og lungnaþembu og konur voru klipnar í rassinn og skríktu af ánægju.
Þetta er sniðug búð. Ég er þegar byrjuð að eyða (litlum) pening þar.

Sjálfstæðismenn í borginni eru farnir að sýna sinn rétta lit og henda tónlistarnemendum aftur út í horn. Þeir fussuðu og sveiuðu nóg í kosningunum yfir meðferð R-listans og byrjuðu stjórnartíðina með stæl með því að hleypa elliheimilsmat á borð við mig inn í skólana. En þeir vilja ekki borga undir þetta pakk í strætó.

GMB hummar alla gagnrýni fram af sér í Fréttablaðinu í morgun og ýjar að því að tónlistanám sé ekki alvöru nám og einhvers staðar verði að draga mörkin ef ekki eigi að steypa borginni í skuldafen. For ðe rekkord þá býður LHÍ (rekið af ríkin) upp á alvöru nám ólíkt Tónó og FÍH (rekið af borg). Ég veit ekki hvort borgin ætlar að byrja aftur á gömlu tuggunni um að hún reki barasta ekki skóla á framhaldsstigi. Eitthvað segir mér að þarna sé peningastreymi á milli stofnana að spila inn í.

Sjálf hef ég ekki tekið strætó af neinu viti frá því um aldamótin en er fullkomlega miðsboðið fyrir hönd samnemenda minna.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Fyrir rúmum 3 árum keypti Embla af mér bíl og gengum við báðar frekar sáttar frá þeim viðskipum

Í dag keypti Embla aftur af mér bíl. Við erum sáttar held ég en tíminn mun auðvitað leiða það betur í ljós.

Ert þú búin(n) að finna kaupandann í þínu lífi?

Deja vu - all over again.

föstudagur, ágúst 17, 2007

Innilegar hamingjuóskir til Nönnu sem átti afmæli fyrir tveimur dögum og varð – að eigin sögn – 25 ára. Skál fyrir auknum þroska og áframhaldandi velgengni í lífinu.

Í dag hinn 17. ágúst – eða 20. dag Heyanna - á hins vegar hin dularfulla Fúlhildur Ljótbjörg afmæli þótt Þjóðskrá sé eitthvað treg til að staðfesta. Ekki náðist í skáldkonuna í tilefni dagsins en hún ku vera 29, 34, 68, 3 og 45 eftir því hvenær hún er spurð og hversu mikið hún hefur drukkið.

Í tilefni af þessum gleðidögum er ég sjálf komin á splunkunýja bíl! Ja splunkunýjan fyrir mér. Hin fínasti Volvo árgerð 2000, silfurlitaður og sjálfskiptur. Ég átt von á að verða smástund að venjast sjálfskiptingu á ný eftir hafa verið á beinskiptum í mörg ár en það reyndist ekkert mál. Verra er að venjast litnum og þarf ég að taka mig alla á þegar ég kem út úr búð að valsa ekki að fyrsta rauða faratækinu sem ég sé og reyna að opna.

Svo ég ítreki: Toyota Corolla, árg. ’94 til sölu, nýskoðuð og velmeðfarin, óska eftir tilboði, áhugasamir hringi í 692 6012.

mánudagur, ágúst 13, 2007

Ég nennti ómögulega að dröslast norður á Dalvík svona nýheimkomin og svefnavana og eyddi í staðinni helginni í að heimsækja Gaypride, Ikea og Heiðu Skúla.

Gaypride var með venjulegu sniði og gaman af því en ég tók sérstaklega eftir því hversu vinsælt auglýsingartækifæri gangan reyndist fyrir hin ýmsu fyrirtæki. Glitnir og Landsbankinn voru í ofurhýru stuði (og voru mjög líklega styrktaraðilar) en flestar búðir á Laugarveginu létu sér nægja að henda smá regnbogadóti í gluggana og segja það gott. Svosem ekki við meiru að búast en gaman að sjá þau fyrirtæki sem gengu skrefinu lengra. Eins og t.d. barnafataverslunin Englabörn sem var búin að átfitta allar sínar gínur í krúttlega regnbogagalla - eitthvað sem augljós vinna, hugsun og sérpöntun hefur farið í. Í eitt augnablik hvarflaði að mér að sjónvarpsstöðvarnar væru með á nótunum og höguðu kannski dagskrá sinni eftir deginu en eitthvað var hún tómlega af samkynhneigðu efni. RÚV komst næst því með Mika tónleika á miðnætti - en lítið gagn í því þegar gaurinn neitar að koma út úr skápnum. Nú eru flestir stórir hátíðisdagar yfirleitt úttroðnar af viðeigandi sjónvarpsefni og skrýtið að engum skyldi detta í hug að haga seglum eftir hýrum vindi. Ég veit ekki hvort vídeóleigurnar eða bókabúðirnar voru eitthvað meira vakandi - en leyfi mér að efast.

Ikeaferðirnar voru ekki í frásögu færandi en það sama verður ekki sagt um dýrindis veitingar Heiðu í gær - síðasta sí-bakandi konan á norðurheimshveli leyfi ég mér að fullyrða. Takk fyrir mig.

Að lokum nokkrar tilkynningar:

* Bíll til sölu - Toyota Corolla '94, keyrður 201.000 km, nýskoðaður, nýir bremsuklossar, rauður, smá upplitaður en ryðfrír, traustvekjandi fyrri eigandi, tilboð óskast.

* Hjálparhella óskast - helst uppfull af framkvæmdagleði og/eða getu og vilja til að sparka í rassinn á mér. Fyrirhugaðar framkvæmdir á stofu, tilfærsla á húsgögnum, uppröðun, myndaskipulag, Sorpuferðir og fleira. Í boði einn ósnertur tollur og sushi og súkkulaði eins og hægt er að troða í sig.

* Never Mind the Buzzcocks er brjálæðislega fyndinn þáttur:

miðvikudagur, ágúst 08, 2007

Blogger er í rétta fílingnum og stillir öllu upp hjálpsamur fyrir mig á dönsku. Gaman að því þegar tölvurnar hugsa fyrir mann. Mig vantar eina sem getur stútað moskítóflugum.

Er annars í góðu yfirlæti í Árósum. Halldór, Jóhanna Ýr og Heba skruppu í Ikea að skoða húsgögn og ég sit á veröndinni með tölvuna hennar Jóhönnu og fylgist með litlu ormunum stunda stunt-eldamennsku í garðinum með krakkaeldhús, bala af vatni, sandi og talsverðum látum.

Mér skilst að veðrið i Danmörku haf verið eitthvað leiðinlegt framan af sumrinu en það hefur leikið við allt landið síðan ég kom. 22-28 stiga hiti alla daga og sól og blíða. Einnig skilst mér að verslunarhelgin á Íslandi hafi verið eitthvað vætusöm... Ég er ekki að segja að það sé samhengi á milli en þið viljið kannski vita að ég kem heim annað kvöld. Væntanlega góðar fréttir fyrir fiskidaginn á Dalvík.

Það hefur auðvitað gengið á ýmsu eins og við er að búast þegar um búferlaflutninga er að ræða en Jóhanna er búin að útlista öllum Murphy-látunum í ítarlegri færslu svo ég þarf þess ekki.

Planið fyrir þennan síðasta dag er að kíkja í miðbæinn og misþyrma kreditkortinu. Vonandi verður ekki of heitt.

Og ... udgiv indlæg.