mánudagur, október 20, 2003

Úff - ég stefni hraðbyr í "Letibloggari Mánaðarins." En ekki rita nafn mitt bikarinn alveg strax. Ég sé að ég er ekki sú eina í lægð. Enda er við því að búast. Blogggleðin kemur og fer - hugsanlega tengd gangi himintunglanna eða dagskrá sjónvarpsstöðvanna. Nú finn ég hana færast yfir á ný. Um stundarsakir að minnst kosti.

Nú keppist landinn við bólusetningar. Inflúensufaraldu ku vera á leiðinni og ógnar heilsu og vellíðan landsmanna. En það er önnur og mun lævísar vírus á kreiki. Þennan vírus, af JW stofni, er erfitt að einangra og enn erfiðara að bólusetja gegn. Hann velur sér smitbera af kostgæfni og lætur þá um að vinna alla vinnuna fyrir sig. Til allrar hamingju smitast hann ekki í gegnum öndunarfæri heldur er nauðsynlegt fyrir tilvonandi sjúklinga að sitja, nær hreyfingalausir í 43 mínútur á meðan hann nær almennilegum tökum á fórnarlambinu. Smitberarnir sjálfir eru yfirleitt hvað verst farnir af sjúkdómnum og ekki færir um að taka yfirvegarðar ákvarðanir. Einkennin lýsa sér sem algjör missir á sjálfstæðum vilja, nær stanslaus eftirvæntingar tilfinning og löngun til að smita aðra. Enn sem komið er hefur þessi vírus ekki náð hættulegri útbreiðslu en þar sem engin lækning finnst og engin bólusetningaleið þekkt önnur en sú að neita að sitja kjurr í þessar 43 mínútur er hætta á að árið 2056 verði öll heimsbyggðin undirlögð. Hvað er til ráða spyrjið þið og ekki nema von. Besta leiðin til að komast hjá smiti er að varast smitberana. Það er rétt að útvortis einkenni eru engin - nema ef nefna skyldi brjálæðislegan glampa í augum og tilhneigingu til að þylja undarlegar frasa - en góð þumalputtaregla er að fylgjast með mögulegum smitberum á netinu. Þar kemur oftar en ekki þeirra sanna sýkta eðli í ljós. Það er skylda mín að tilkynna öllum sem kynna að vera í hættu að um þessar mundir geisar faraldur mikill á Vesturgötu. Íbúar á heimili þar hafa lagst allir sem einn og legst sóttin þungt á þá. Eins og gengur og gerist eru sjúklingarnir mis illa haldnir og er yngir karlmanni heimilisins vart hugað líf. Eins og fram hefur komið er engin lækning við Buffilia Vampiris Slayosis og er eina leiðin að senda styrkjandi hugsanir og leyfa sóttinni að ganga sitt skeið. Því þrátt fyrir allt er hægt að lifa með sjúkdómnum og sumum hefur jafnvel tekist að stunda vinnu og einföld félagsstörf. Dæmi eru meira að segja um að sjúklingar hafi eignast fjölskyldu. En hinn kaldi og sorglegi sannleikur er sá að á meðan fólkið lifir finnur það alltaf fyrir einkennunum og er jafnframt smitberar þessa stórhættulega sjúkdóms.

Engin ummæli: