miðvikudagur, október 20, 2004

Ég er að hugsa um að setja mér nýja lífsreglu. Þessi er einföld sem aldrei fyrr enda nauðsynlegt þegar ég á í hlut. Breytingar á lífstíl hafa hingað til ekki verið mitt aðalsmerki. Hún felst í eftirfarandi spurningu: kem ég til með að sjá eftir þessu? Ólíkt öðrum lífsuppskriftum sem segja manni í smáatriðum hvað á og á ekki að gera (fara í ræktina, borða hollan mat, ekki slugsast, ekki éta nammi, hitta vini sína, ekki drekka of mikið, fylgjast með stjórnmálum, vera virk, rækta hugann, vinna í garðinum, fara snemma að sofa, eignast börn, spara o.s.frv.) byggist þessi á að kæfa í fæðingu grunnhugmyndina sem kemur í veg fyrir að gera allt sem maður á að gera - eða finnst að maður eigi að gera - þ.e. "ég nenni ekki." Það góða er svo að þessi heimspeki kemur ekki í veg fyrir almenna afslöppun og regluleg letiköst og eftirgjöf. Því ef rétt er farið með stóru spurninguna segir það sig sjálft að stundum sjái maður alls ekki eftir hinu góða og þægilega í lífinu. Ef maður sér ekki eftir því er það gott. Þetta er eiginlega of einfalt til að vera ekki satt og eina sem getur komið í veg fyrir ótakmakraða framtakssemi og fullnýtingu auðlinda er hreinlega tímaskortur.

Sem dæmi:
Ég fæ þá flugu í höfuðið að kannski værir vissast að taka til. Þá beit ég SpurningunniTM: mun ég sjá eftir því. Líklegt er að svarið sé nei og þá verð ég að taka til ekki satt?

Þetta virkar líka á hinn veginn. Mig langar að hanga fyrir framan sjónvarpið, prjóna og éta nammi. Skellu SpurningunniTM á þetta - og ekki stendur á svarinu. Svo lengi sem það stangast ekki á við annað í forgangsröðinni sem búið er að beita SpurningunniTM á er það í góðu lagi.

En að vísu ... ég er ennþá bara að hugsa.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

billjard. það er ekki spurning.

sapuopera sagði...

Þú ert vitur. Ég ætla að ættleiða þessa lífsreglu hér og nú. Og dreifa fagnaðarerindinu sem víðast.