þriðjudagur, október 26, 2004

Gífurlegt sjálfsbætingarátak á sér stað þessa dagana. Í kjölfar þess að ég hóf söngnám (sem kærasti Siggu Láru segir að sé svo gott fyrir sálina) ákvað ég að bæta líkamanum á listann og hef keypt mér sex mánaða kort í líkamsrækt og verður nú tekið á af alefli. Eins og alltaf þegar fólk kaupir sex mánaða kort í líkamsrækt. Ég er þess sannfærð að forvitnir geti barið mig augum púla í hinum ýmsu tækjum Slippsins alla daga vikunnar næstu sex mánuði. Eða að minnsta kosti við og við. Slippurinn við Mýrargötu er forvitnileg líkamsræktarstöð og sker sig úr fyrst og fremst fyrir það sem hún hefur ekki:

* enga spegla
* enga sjónvarpsskjái
* enga tónlist í hátölurum
* enga sprikltíma
* enga kvenmenn

Þarna er að jafnaði tylft karlmann að lyfta afskaplega stórum og þungum lóðum. Kannski má glitta í eins og tvo kvenmenn trítlandi á göngubrautum - hafa sennilega mætt með köllunum sínum sem eru að taka á því milli prótínsjeikanna. Það sem lokkar mig er fyrst og fremst upptalningin hér að ofan. Engir speglar sem maður er stanslaust að firra sig yfir, enginn hávaði að valda hausverk, engar kellingar fyrir manni í tækjunum eða sturtunum, engir samviskubitsvaldandi sprikltímar sem ég hata hvort eð er að mæta í. Gott mál.

8 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Þú vera dugnaðarforkur, ekki minns.

Siggalára sagði...

Átt mína aðdáun óskipta fyrir framtakssemina. Er örugglega allt saman ógurlega gott fyrir sálina, svo ég vitni í hann Árna minn, sem er það líka :-)

Auður sagði...

Þetta hljómar allt mjög vel fyrir utan sjónvarpsleysið og karlmennina. Karlafælni mín hefur nefnilega beint mér að Baðhúsinu og fyrr skal ég hundur heita en ég fari að hjóla við hlið sveittra karlperra. Lifi systralagið!

Ásta sagði...

Ætli ég taki ekki Nönnu með mér - það er alveg nógu mikið systralag fyrir mig. Það er svo troðið í Baðhúsinu - ég er með netta fóbíu gagnvart fólksfjölda (demophobia).

Berglind Rós sagði...

Minns fer bara í jóga, engir speglar, ekkert sjónvarp, enginn hávaði og enginn neitt sérstaklega sveittur ;-)

Skotta sagði...

Þú átt alla mína aðdáun akkurat núna....

Ásta sagði...

Bíddu með aðdáunina þangað til ég er búin að mæta í a.m.k. eitt skipti

fangor sagði...

við erum hetjur! ég mun fjárfesta í korti umn leið og ég eignast peninga, væntanlega fyrir helgi. þá er bara að mæta...