föstudagur, október 15, 2004

Guð hvað ég er fegin að það er komin helgi. Þessi vika hefur einkennst að sleni og nennuleysi sem aldrei fyrr. Ég líka hrædd um að ég sé að breytast í félagsskít af verstu gerð sem að flestir vinir mínir geta sennilega frætt mig á að er ekki andlega heilsusamlegt. Ég nenni bara svo afskaplega lítið út úr húsi. Vil ég gjarnan kenna leiðinlegu haustveðri um en kemst sennilega ekki upp með það til lengdar. Því skal slett úr stirðnuðum klaufum þessa helgi. Ég býst fastlega við því að ég stefni á Idol setu heima hjá Nönnu í kvöld ef það er í boði og svo verður bærinn málaður rauður - næstum því bókstaflega - í kjölfar mega-þema-afmælisveislu Auðar annað kvöld.

Það hefur víst fjölgað í húsinu okkar um einn. Strákarnir í kjallaranum hafa ákveðið að ættleiða litla, sæta, loðna og ómerkta læðu sem hefur verið að flækjast um húsið. Hún er svo blíð og mannblendin að ég er þess fullviss um að hún eigi heima einhvers staðar en þeir eru sannfærðir um að hún sé flækingsköttur. Ætti ég láta þá fara með hana í Kattholt? Ef hún er flækingur þarf hún örugglega að fá sprautur og ormalyf o.þ.h. Ég hef smá áhyggjur af því að strákarnir flytji burt einhvern tímann í náinni framtíð en skilji hana eftir - háða kjallaranum. Og hvað geri ég þá? Ég sé ekki fyrir mér að Lísa og Gabríel sætti sig við þriðja köttinn á heimilið. Svo eru tveir kettir á heimili alveg nógu slæmt fyrir piparjúnku ímynd mína - sérstaklega þar sem hægt er að finna mig hvert kvöld fyrir framan sjónvarpið hálfgrafna í prjónahrúgu - þrír, er ég hrædd um, myndu endanlega gera útslagið.

Engin ummæli: