mánudagur, apríl 04, 2005

Þá er maður loksins að skríða upp úr eymdinni. Mikil lifandi ósköp er þetta nú ekki gaman. En ... mesti óþverrinn að baki og betri heilsa í sjónmáli. Gerði ekki mikið af viti í gær – enda á fullu að láta mér batna – en tókst þó að draga nágrannakonuna inn í syndsamlegt líferni ólöglegs niðurhals. Hún var kampakát yfir þessari nýfengnu þekkingu og er örugglega að misnota tenginguna sína sem mest hún má í þessum skrifuðu orðum. Eftirfarandi lærdóm má draga af þessu: Ef ég fer niður tek ég alla með mér! Kaupmannahafnarreisan okkar Jóhönnu Ýr vindur upp á sig og ætlar núna ein vinkona hennar að fá að koma með. Ég þekki hana nú ekkert að ráði en þetta verður örugglega bara gaman.

Vil hérmeð óska Sigguláru til hamingju með að vera formlega stiginn inn á fertugsaldurinn í dag og Stebba með að hafa nálgast hina gullnu (blikkandi) tölu enn frekar síðastliðinn laugardag.

Annars er mig farið að gruna að dagskrárdeild ríkissjónvarpsins lesið bloggið mitt. Allir þeir þættir sem ég hef eitthvað tjáð mig um hafa verið – eða munu verða - teknir til sýningar á RÚV. Desperate Housewives byrjaði fyrir nokkru, fyrsti þátturinn af Lost er í kvöld (allir að horfa – RÚV er ekki með endursýningar!) og ég gat ekki betur séð á auglýsingunum en að Little Britain hefjist bráðlega. Þá er bara að vona að holskefla breskra lögguþátta sé í rénum – þetta var orðið soldið þreytt. Þótt það sé vissulega freistandi að nota þessi nýuppgötvuðu krafta mína til ills (skrifa lofsamlega dóma um Tru Calling og sjá hvað gerist) finnst mér talsvert brýnna að minnast á þrjá þætti sem ég hef nýlega uppgötvað mér til mikillar ánægju.

Veronica Mars – aka Nancy Drew á nýrri öld. Fjallar um hina 17 ára Veronicu sem var áður ein vinsælasta stelpan í skólanum en féll í ónáð eftir að besta vinkona hennar var hrottalega myrt og lögreglustjórinn faðir hennar sakaði forríkan föður stúlkunnar um morðið. Já og Veronicu var byrlað eitur, henni nauðgað og móðir hennar hvarf. Nú vinnur hún á einkaspæjaraskrifstofu föður síns, hjálpar honum og skólasystkinum sínum með mál og reynir að leysa gátuna um morð vinkonu sinnar. Vel skrifaðir þættir með fullt af húmor. Hefur verið líkt við Buffy mínus allt hið yfirnáttúrulega.

Numb3rs. Nokkuð lunkinn sakamálaþáttur úr smiðju Ridley Scott um alríkislögreglumann sem fær stærðfræðisénið hann bróður sinn til að hjálpa við lausn mála. Talsvert meira í þættina spunnið en þessi lýsing segir til um.

House – aka ef Sherlock Holmes hefði verið læknir. Þetta er allt annað en ER eftirherma. Hérna eru sjúkdómar settir upp sem sakamál og hinn mannfælni og illúðlegi Dr. House keppist við að finna lausnina. Er með nokkra velviljaða unglækna á sínum snærum sem hann getur pískað eins og hann vill. Þessi læknir (leikinn af Hugh Laurie) á ekki svo lítið sameiginlegt með hinum fræga spæjara þar sem aðferðafræði þeirra er mjög svipuð svo og ást þeirra á vanabindandi lyfjum. Fullt af húmor og póltískri ranghugsun.

Nú bíð ég bara spent eftir því að sjá hvað poppar upp á dagskrá RÚV næstu mánuðina. Því það hlýtur að vera nokkuð ljóst núna að ég hef alltaf rétt fyrir mér um svona mál.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tru Calling og Numb3rs verða á stöð 2 sorrí.
Vala