föstudagur, desember 16, 2005

Um fegurðarsamkeppnir

Ég ætlaði mér nú að standa algjörlega fyrir utan þessa umræðu - a.m.k. á blogginu - en get auðvitað ekki á mér setið.

Ungfrú Ísland er Ungfrú Heimur. Gott hjá henni. Hún átti það örugglega meira skilið en einhver tilteygð silikonbomba.

Nú koma slæmu fréttirnar.

Ég er ekkert rosalega fylgjandi fegurðarsamkeppnum. Finnst þær draga upp falska mynd að kvenfólki, still þeim upp sem gínum og fullkomleikafyrirmynd sem þátttakendurnir sjálfir ná ekki að nálgast. En ... staðreyndin er sú að fólk hefur þessa tilhneigingu til að dæma fólk eftir útlitinu og á meðan slík hegðun er rík í manninum (og munið að konur eru líka menn) er næsta fullvíst að til verði fegurðarsamkeppnir í einhverri mynd. Á maður þá bara að yppa öxlum og segja "svona er Ísland í dag?"

Auðvitað ekki. Sjálf sé ég skýra sammerkingu á milli fegurðarsamkeppna og stríðsreksturs Bandaríkjamanna í Írak. Ójá.

Við feminista[niðurlægjandi lýsingarorð að eigin vali] höfum ekkert við stúlkurnar sem taka þátt í keppninni að sakast. Ekki frekar en friðarsinnar ámæla þá menn og konur sem send eru að berjast og deyja í stríði. Þær fá upp í hendurnar tækifæri - bæði frá fólki í samfélaginu og í gegnum hið genetíska lotterí - til að koma sér áfram á einhverju sviði. Nýta þá kosti sem þær hafa fram að færa. Lái þeim hver sem vill. Ekki geri ég það. Nei, það er stríðreksturinn sem liggur undir ámæli hér. Bara vegna þessa að eitthvað hefur verið gert á ákveðinn hátt í háa herrans tíð er ekki þarmeð sagt að það sé ákjósanlegt. Ímyndum okkur fegurðarsamkeppni sem dvergakast. Þótt þú finnir einhverja dverga sem kjósa að taka þátt er keppnin engu að síður niðurlægjandi fyrir dverga upp til hópa.

Þegar ég hugsa málið sé ég engan mun á dvergakasti og fegðurðarsamkeppnum. Í báðum tilfellum eru einstaklingar skilgreindir út frá líkamlegum eiginleikum eingöngu og notaðir í keppni án tillits til þess að um vitsmunaverur sé að ræða. Ég ætla mér ekki að ráðast á einstaka dverga fyrir að kjósa að taka þátt í slíkum keppnum - sér í lagi ef það skapar þeim tækifæri sem þeir hefði ekki annars fengið. En ég leyfi mér að efast um að allir dvergar í heiminum séu sérstaklega ánægðir með að litið sé eingöngu á þá sem skondna bolta.

Að lokum: fínt hjá ráðmönnum þjóðarinnar að óska Unni Birnu til hamingju með titilinn. Og fínt hjá feministum að gagnrýna það. Mál- og skoðanafrelsi er svo gasalega hollt.

Og í tilefni af fegurðarsamkeppnum alls staðar hef ég ákveðið að hoppa yfir Jólaóratórínu og leyfa Kapítólu Karlsdóttur að tjá sig um eigin fegurð í spilaranum.

Engin ummæli: