mánudagur, maí 08, 2006

Ég rak nefið inn á mitt fyrsta bandalagsþing um helgin og það var forvitnileg reynsla. Reyndar var ég nú þarna aðeins til að hlýða á umræður um einþáttungana (eða stuttverk) á "Margt smátt" sem fór fram kvöldið áður svo og val gagnrýnenda á bestu þáttunum. Lét ég mig hverfa að því loknu. Síðan var hátíðarkvöldverður um kvöldið þar sem tilkynnt var um athyglisverðustu áhugasýningu ársins. Hugleikur reið feitum hesti frá fyrra vali (Nanna/Júlía og Gummi/Siggi unnu fyrir þættina sem þau leikstýrðu/skrifuðu og þrefalt húrra fyrir þeim!) en ekki því síðara. Sem var sjálfsagt allt hið sanngjarnasta. Ég hef ekki séð Þuríður og Kambsránið en sú sýning hljómar mjög spennandi og ég hef enga ástæðu til að halda að hún sé nokkuð annað en framúrskarandi og vel að sigrinum komin.

En þótt valið væri búið hélt fólk áfram að viðra sínar skoðanir og hlustaði ég á marga og misjafna dóma um þetta allt fram eftir nóttu. Ég ætla ekki hafa eftir það sem mis-biturt fólk lét frá sér fara undir áhrifum enda sjálfsagt að hver og einn hafi sína lituðu og ólituðu skoðun.

Það vöknuðu hjá mér hins vegar spurning um hvað "atvinnumönnum" þættu athyglisvert. Þ.e. hvernig þeim fannst að áhugaleikhús ætti að vera. Því það fór ekki framhjá mér að þeir virtust vera með einhverjar kröfur - um það sem á og má. Og þótt allir hömruðu á mikilvægi áhugaleikhúsanna í menningarflórunni var ekki laust við að talsverðan yfirlætisblæ væri að finna á viðhorfunum. Það er samt ekki við þessa einstaklinga að sakast - þau eru skipuð í þetta hlutverk og þeirra viðhorf hljóta að mótast af atvinnumennskustatus þeirra. Gagnrýnin á einþáttungana var t.d. bæði sanngjörn og uppbyggilega þótt auðvitað væri ég ekki alltaf sammála henni. Því það er alltaf þessi gjá á milli áhuga- og atvinnuleikhúsa - hvort sem fólk vill bekena hana eða ekki - og einhver staðar í ferlinu virðist hafa fæðst sú skoðun að atvinnuleikhúsin viti betur heldur en áhugaleikhúsin sjálf hvernig ber að skilgreina þau. Og þar set ég stórt spurningarmerki. Viljum við í alvöru sífellt leitast eftir náð í augum atvinnuleikhúsanna? Erum við börnin sem þau eru að ala upp? Þurfum við eitthvað á þeim að halda? Hvernig væri að við héldum einhverja seremóníu og veldum athyglisverðustu atvinnuleiksýningu ársins og kvörtuðum síðan undan einþáttungaskorti? Bara hugmynd.

Úff - nú hljóma ég bitur sem ég er alls ekki. Hin hliðin á málinu eru auðvitað sú að það getur virkað hvetjandi á áhugaleikfélögin að hafa að einhverju að keppa. Svo lengi sem reynum ekki að eltast við einhverja pro-stimplaða gæðastaðla.

4 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Áhugaverðasta atvinnusýning ársins. Vissulega hugmynd fyrir leiklistarvefinn, finnst mér.

Gadfly sagði...

Sú hugmynd að áhugaleikfélög taki upp á því að dæma sýningar atvinnuleikhúsa er hvílík gargandi schnilllld að ég skora á þig að leggja hana fyrir næsta Bandalagsþing.

fangor sagði...

hiklaust!

Nafnlaus sagði...

Frábær hugmynd.