þriðjudagur, mars 02, 2004

Það er draugur að vinna hjá Fasteignum ríkissjóðs. Sem er afskaplega hentugt þar sem að það fer lítið fyrir honum og hann þiggur ekki laun. Á hinn bóginn er hann ekki iðnasti starfskraftur sem um getur, hellir aldrei upp á kaffi og enn sem komið er hefur hans aðeins orðið vart tvisvar og í bæði skiptin hefur hann kosið að aðstoða Orkuveituna við að fá reikningana sína borgaða. Baksagan er sú að undanfarinn mánuð hefur kona frá Orkuveitunni hringt í okkur nokkuð reglulega og kvartað undan ógreiddum reikninum - sem er nú bara eins og gengur og gerist. Hún hefur hins vegar ekki getað gefið upp sömu ógreiddu upphæðina tvisvar og einu sinni tók hún sig til og ákvað að við værum í plús og lét okkur hafa pening. Þeirri örlátu gjöf fylgdi hins vegar fjótt önnur krafa. Það merkilega er að hún er alltaf að kvarta undan einhverjum júlíreikningum sem við erum víst voða vondar manneskjur fyrir að hafa ekki borgað. Málið er bara að við viljum ekki kannast við það að hafa fengið þá. Það er þarna sem draugurinn kemur til skjalanna. Tvisvar hefur það gerst undanfarnar vikur að ég hef fundið - á borði mínu - í reikningahrúgunni minni - sléttan og nýútprentaðan en með öllu óstimplaðann júlíreikning (ég stimpla alla reikninga sem koma inn með móttökudagsetningu). Einmitt þann reikning sem hún var síðan nýbúin að ræða við okkur um. Þetta á ekki að geta gerst og sé ég bara þrjá möguleika í stöðunni;

a) ég er orðin alvarlega geðveik með minnisglöp og ofsóknarbrjálæði (sjá b)
b) þessi Orkuveitukona kemur reglulega inn á skrifstofuna og laumar reikningum í bunkann minn máli sínu til stuðning
c) draugur

Dæmi nú hver fyrir sig (Sé! Sé!)

Engin ummæli: