mánudagur, mars 29, 2004
Í gær átti að vera sýning á Sirkus en hún féll niður og skyndilega hafði ég allan daginn til að dinglast heima hjá mér. Aldrei þessu vant nýtti ég tímann. Ég byrjaði á því að raða öllum bókunum í bókaskápnum inni í herbergi í stafrófsröð - ekki lítið og létt verk þar sem eingöngu er um pocketbækur að ræða og tvíhlaðið í hillurnar. Síðan gerði ég nokkuð sem ég hef ætlað mér að gera í 1-2 ár - sneri herberginu við. Færði rúmið, tók til, fann alls konar skrýtna og skemmtilega hluti sem ég mundi ekki eftir að ég ætti, tæmdi gömlu kistuna og lét inn til Siggu, henti 4 troðfullum pokum af rusli - aðallega Fréttablaðinu. Á yfirborðinu virkaði verkið létt en tók glettilega mikið á og því nauðsynlegt að taka góðar pásur inni á milli. Ég byrjaði að horfa á The Simple Life: Reunion Show en heilinn mátti ekki við fjöldasjálfsmorði heilafrumanna og því skipti ég yfir á Ríkissjónvarpið og horfði "And Björk of course" - eiginlega alveg óvart - ég er vön að missa af íslensku sjónvarpsefni. Æ ég veit ekki. Hugmyndin nokkuð góð en leikritið virkaði sennilega mun betur á leiksviði (þar sem ég hef ekki séð það.) Þessi "raunveruleika" tilraun var ekki að ganga upp. Fólk var gera og segja hluti fyrir myndavélar sem það mundi aldrei gera annars. Stíliseraðar persónur í leikritum geta komist upp með að gera og segja ýmislegt sem varpar ljósi á persónurnar en þegar formatið er orðið annað - sérstaklega raunveruleikasjónvarp - verða kröfurnar aðrar. Þetta átti sérstaklega við veruleikafirrtu hjónin; Huldu og Indriða. Þau voru alltof ýkt - of miklar skrípamyndir til að geta talist "raunveruleg" sem átti þátt í að eyðileggja blekkinguna. Alltof blind á eigin galla. En það kom meira til - ég var sífellt að hugsa um hvers vegna enginn væri að kippa sér upp við það að það væri myndavél á klósettinu (mundi maður ekki velja þann kostinn að hverfa á bakvið nærliggjandi hól við slíkar aðstæður?) Sjónarhornin voru oftar en ekki óraunveruleg - þegar klippt var frá einu sjónarhorni til annars hurfu myndatökumenn sem annar hefðu átt að vera til staðar. Og svo var það hópsex/nauðgunarsenan - eru Íslendingar tilbúnir að gera hvað sem er fyrir framan myndavélar (þótt þeir séu ekki djamminu)? Endirinn virkaði líka snubbóttur og frekar ódýr. Það var eitt og annað gott við þessa mynd (leikarar voru t.d. almennt að standa sig mjög vel) en mér er eiginlega ómögulegt á þessari stundu að einblína á neitt annað en hið neikvæða.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli