fimmtudagur, mars 04, 2004
Þá munu ruslahaugar Reykjavíkur flytja sig um set á næstu dögum. Það sem ég mun sakna þeirra lítið. Þetta er komið í hátt á fimmta mánuð! Eins og áður var skýrt frá þá var heilbrigðiseftirlitið komið í málið og hræddi m.a. líftóruna úr Siggu í einu heimsókninni sinni. Hefði það betur ráðist á hinn rétta sökudólg en samkvæmt konunni sem ég ræddi við í gær þykir fulltrúum heilbrigðiseftirlitsins víst nóg að dúkka upp um miðjan dag þegar enginn er örugglega heima og tala við fyrstu manneskjuna sem þeir rekast á. Senda síðan bréf á húsfélag og hefja skriffinnskuna. Eftir að hafa fullvissað mig um að sú góða stofnun mundi ekkert aðhafast að svo stöddu nema setja málið í nefnd og fá þær upplýsingar að frestur til að fjarlægja draslið hafi runnið út daginn áður bað ég um afrit af bréfinu og trítlaði með það upp til nágrannakonunnar seinna um daginn. Kom á daginn að hún kannasti við bréfið og sagði það nýkomið. Ég lagði áherslu á það - eins og svo oft áður - að það þyrfti að losa draslið úr garðinum og hún var alveg jafn sammála mér og alltaf. Móðir hennar hins vegar var ekki á þessari þægilegu línu. Hún var þarna í heimsókn og alveg brjáluð út í mig. Hún hafði sjálf talað við eitthvað fólk hjá heilsuvernd og það vildi ekkert kannast við málið og sagði að það skipti sér ekki af þessum hlutum. Ég minnti hana á að um heilbirgðiseftirlitið væri að ræða, ekki heilsuvernd. Þá sagðist hún hafa meint heilbrigðiseftirlitið og endurtók rulluna. Gat ég ekki betur séð en hún væri virkilega reið út í mig - ekki veit ég alveg fyrir hvað. Eina sem ég gerði var að koma upplýsingum áleiðis en hún hefur kannski haldið að allt þetta vesen væri runnið utan mínum rótum. Þegar leit út fyrir að stefndi í slagsmál þaggaði nágrannakona mín niður í móður sinni og sagði að hún skyldi redda þessu á næstu dögum.
Það sem mig langar til að vit er af hverju fólk er alltaf að garga á okkur Siggu? Við erum góðar, siðprúðar stúlkur, borgum okkar afnotagjöld (báðar), þiggjum ekki nammi frá ókunnugum og dreifum aðeins drasli í kringum okkur inni í íbúðinni þar sem enginn sér til. Sé ekki betur en að við eigum miklu frekar skilið klapp á kollinn heldur en þessi eilífu leiðindi.
Það sem mig langar til að vit er af hverju fólk er alltaf að garga á okkur Siggu? Við erum góðar, siðprúðar stúlkur, borgum okkar afnotagjöld (báðar), þiggjum ekki nammi frá ókunnugum og dreifum aðeins drasli í kringum okkur inni í íbúðinni þar sem enginn sér til. Sé ekki betur en að við eigum miklu frekar skilið klapp á kollinn heldur en þessi eilífu leiðindi.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli