miðvikudagur, júlí 14, 2004

Af hverju get ég ekki haldið úti almennilegri fýlu svona einu sinni? Þessi varði rétt svo í sólarhring og gufaði síðan upp eins og dögg fyrir sólu. Og það þótt að slagveður hafi verið í Heiðmörk í gærkvöldi. Endurskoðum listann:

- bak sem vill ekki lagast (ekki svo slæmt eins og er)
- óklífanlegt reikningafjall (reikningar smeikningar)
- æfingar á hverju kvöldi næsti 10 daga þar sem ég fæ að sitja og frjósa úr kulda í þrjá tíma í senn (þá klæðir maður sig bara vel unga stúlka - svo vel að maður á föt afgangs til að lána illa klæddum vesalingum)
- engan möguleika á að taka frí þessa viku eða næstu (en svo fer ég líka í tveggja vikna frí - ekki amalegt)
- ennþá enga heimatölvu (en er með glænýja vinnutölvu)
- enga peninga (hver getur ekki lifað á loftinu?)
- enga sól (eins gott - þetta er stórhættulegur andskoti)
- enga glætu (tralalala)
- engan sundbol (ég á tvo gamla sundboli sem ég nota bara í neyð - og ætti að geta náð í þann þriðja til Nönnu í hádeginu)
- ósamstarfsfúsa ketti (þetta eru ágætis grey)
- vælulegan tón í röddinni og þunglamalegt yfirbragð (smæl!)

Ekki að allt sé sólskin og spékoppar þessa dagana. Ég stend sjálfa mig að því að stressa mig út af smáatriðum í samandi við leikritið nú þegar það eru bara 10 dagar í frumsýningu. Smáatriðum sem ég hef enga stjórn á og eru engan veginn mín ábyrgð - hlutum eins og skiptingum, tæmingum, staðsetningu áhorfenda, leikmunum og búningum. Ekkert sem er í mínum verkahring að hafa áhyggjur af. Í raun þarf ég bara að muna mína söngtexta og þessar tvær og hálfa setningu sem mér voru úthlutaðar og mæta á réttum tíma. Kannski er ég bara vön að vita meira hvar hlutirnir eru staddir á þessum tímapunkti. Ég er a.m.k. búin að venja mig á það að hafa áhyggjur af gervunum og þar sem engir búningar hafa sést ennþá - engin mál hafa t.d. verið tekin af leikurum og ég er manneskja sem þarf helst að taka mál af ef vel á að fara1 - er mig pínulítið farið að klæja í puttana að skipta mér af. Sem er auðvitað helber flónska. Ég er loksins búin að koma mér í þetta fína ábyrgðarlausa hlutverk og er svo að sækjast eftir óþarfa hausverk!

1Kannski er hugmyndin af setja mig í tjald eins og í Sirkus. Ég sem var að vonast eftir því að þar sem ég leik nú frillu fengi ég að hafa mitti svona einu sinni.

Engin ummæli: