mánudagur, október 11, 2004

Ég sé glitta í ákveðin tímamót í lífi okkar allra. Klíku- og kommúnutíminn er liðinn. Þessi hugljómun þarfnast forsögu. Á laugardagskvöldið sat ég ein heima hjá mér og prjónaði. Þetta hljómar vissulega sorglega; 31 árs kelling situr ein heima hjá köttunum, glápir á sjónvarp og prjónar vettlinga á meðan alþjóð skemmtir sér. Ég hefði vissulega getað farið eitthvað og gert eitthvað ef ég hefði borið mig eftir því en ég tók ákvörðun um að gera það ekki. Ég hugsaði sem svo að ef eitthvað skemmtilegt væri að gerast einhvers staðar og fólk óskaði eftir félagsskap mínum mundi það hafa samband. Auður hafði að vísu samband kl. 1 um nóttina en mér fannst það fullseint og fór því hvergi. Ég vorkenni ekki sjálfri mér fyrir þessa þróun mála. Svo virðist bara sem fólk sé almennt að hægja á sér, leita í mismunandi farvegi og sækja í sérsniða vinahópi og afþreyingu. Það er auðvitað hið besta mál og þegar hér er komið við sögu vil ég taka það fram að ég á fullt að af skemmtilegum vinum sem ég vil gjarnan umgangast og vilja gjarnan umgangast mig. Það er ekki málið. Það er bara ekki lengur hægt að hóa í hóp af fólki og láta hann ná saman. Það eru ekki lengur allir á sama hraða. Hverjum hópi virðist nú til dags fylgja sundrung í bið.

Nú skil ég loksins af hverju fólk sækir í að eiga maka. Því þegar vinirnir eru skyndilega allir komnir í nám erlendis, farnir í meðferð, lagstir í barneignir, fluttir út á land og komnir í æsispennandi harmonikkuklíku er gott að hafa einhvern innan seilingar sem fer ekki fet (nema auðvitað þegar helvítin púlla Þ******* - en það er allt önnur saga.)

4 ummæli:

Gadfly sagði...

jamm, lífið er nefnilega ekki eins og í Friends þáttunum en vinsældir slíkra þátta eru nú sennilega tilkomnar einmitt vegna þess að það væri svo rosalega skemmtilegt ef maður gæti haldið sama vinahópnum allt lífið og enginn þyrfti að fara í vinnuna eða á ættarmót með maka sínum. Hinsvegar skil ég þig vel að sitja heima og prjóna á laugardagskvöldi. Það er svo lýjandi að fara út á lífið þegar maður er orðinn fullorðinn og ekkert spennandi að gerast þar hvort sem er.

Sigga Lára sagði...

Ég las reyndar hreint hræðilega fyndna grein eftir Auði Haralds í flugblaðinu á leiðinni norður. Þar gerir hún fræðilegan samanburð á því hvort sé best að fá sér hund, kött eða karlmann, svona ef manni finnst eitthvað vanta. Við Vilborg sátum saman og lásum þetta, nýfráskildar, og hlógum okkur vitlausar. Sýndist síðan að köttur kæmi best út. (En þetta var nú bara á leiðinni norður...)
Annars er náttúrulega langt síðan fólk fór að parast og fara sínar eigin leiðir. Eina leiðin til að bregðast við því er að útvíkka vina og kunningjahópinn, eiga mörg og tímafrek áhugamál... og síðan er náttúrulega hægt að gera margt leiðinlegra heldur en að sitja heima og prjóna. Ég myndi allavega ekki fúlsa við nokkrum svoleiðis helgum, með sjálfri mér eða öðrum.

Ásta sagði...

Ég var nú heldur ekki að kvarta per sei - bara taka eftir þróuninni. Það virðist gerast ósjálfrátt þegar manneskjur komast að 30 ára tímamótunum að þær kúpla sig út úr hópsálinni og fara sína eigin leið - sumir með karlmann eða kött í eftirdragi.

Sigga Lára sagði...

Já, mér finnst þetta reyndar hafa byrjað að gerast fljótlega uppúr 23 ára aldri. Svona eftir háksólann. Eftir það hafa náttúrulega komið kommúnutímabil, en ekki samfleytt. Og var alls ekki að skilja neitt þannig að þú værir að kvarta. En svona er nú mannlegt eðli og öll erum við félagsverur. Þess vegna þarf maður náttúrulega að bregðast einhvern veginn við. Eldri systir mín er til dæmis 35 ára, langar ekki hætishót í karlmann og er með ofnæmi fyrir köttum. Hún kvartaði hins vegar yfir því að hafa engan til að ferðast með og leysti það með því að fara í ferðafélag. Hitt er svo annað mál að karlmenn eru alls ekki sjálfgefin lausn á vandamálinu, enda eru þeir náttúrulega óalandi og óferjandi, svona velflestir. Ég er líka svo óforbetranlegur rómantíker að mér finnst maður eigi aldrei að ná sér í mann í einhverjum sérstökum tilgangi. Það þarf að vera í algjöru tilgangsleysi, af hamslausri ást og rómantík.