sunnudagur, ágúst 07, 2005

Hér eru sviftingar þessa dagana:

* Ég er komin með glansandi fína leigjendastelpu sem lítur ekki út fyrir að vera týpan sem laðar að sér dópista og handrukkara
* Fríið er búið í bili og vinna hefst í fyrramálið
* Kisa litla er týnd og, að því er virðist, tröllum gefin. Hún sást síðast á miðvikudaginn flýja undan mér bak við horn. Ég ætla að hafa samband Kattholt á morgun. Gabríel er himinn lifandi.
* Í dag brúkaði ég 6 daga passann í Hreyfingu sem ég fékk hjá Jóni Geir. Ætla að gera slíkt hið sama næstu 5 daga og sjá hvort ég hef ekki nennu í að kaupa heilt kort.
* Ég fann loksins Leiðarvís í ástarmálum eftir Ingimund Gamla og Madömu Tobbu eftir mikla leit. Þessi eðal leiðarvísir frá árinu 1922 hverfur regulega á mínu heimili og birtist aftur aðeins þegar hann vill láta finna sig. Þarna er um að ræða sérlega nytsama og hjálplega bók og þótt eitthvað af leiðbeiningunum standist ekki hörðustu feminísta staðla ("Sú kona, sem elskar manninn sinn, leitast aldrei við að kasta skugga á húsbóndstöðu hans á heimilinu. Þvert á móti. Henni er ánægja að því að draga sig í hlé, ef kostir hans koma frekar í ljós við það. Jafnvel þótt hún sé meiri gáfum gædd en eiginmaður hennar, gætir hún þess af auðæfum elsku sinnar, að láta sem minnst á því bera") og sumar séu blátt áfram barnalegar ("Það er afarljótt, þegar konur reykja og neyta áfengis á samkvæmum eða á veitingahúsum og það ættir þú aldrei að gera") er bókin rituð af svo fordæmalausri íslenskri skynsemi að erfitt er að finna að flestum ráðunum. Því hvorugt kynið er undanþegið hollráðunum: "Þér er eigi nóg að nota skoðanir Morgunblaðsins og Alþýðublaðsins - sem breytast stundum daglega -, heldur verður þú af eigin dómgreind að gera mun á réttu og röngu. Þú verður að temja þér rökrétta hugsun, því að djarfur hugsunarháttur er mikils virði í augum kvenfólks." Eins og áður sagði er bókin ritið árið 1922 (og mýmörg dæmi um biðlanir skötuhjúanna til íslenskra ungmenna um að bursta tennurnar og fara í bað bera með sér) og því væntanlegt ýmislegt í henni sem þurfti að segja kyrfilega undir rós eða bara alls ekki. Einum degi eftir gay pride er svolítið freistandi að lesa þessa klausu í nýju samhengi: "Sumar konur virðast fæddar með þeirri hamingu að vera pilta-gull, en eigi eru þær að fremur meiri mannkostum búnar en hinar, enda eru þess mörg dæmi, að bestu kvenkostirnir sitja auðum höndum á akri ástarinnar og fá eigi aðhafst - af ýmsum ástæðum."

Hmm...

Engin ummæli: