Það hafa allir séð nýju útgáfuna af Hlemmi ekki satt? Fyrst hélt ég að ég væri ofboðslega glöð að sjá Laugarveginn loksins kominn í sinn rétta farveg - þrátt fyrir hálf ruglingslegt gatnamótasystem. En svo fór ég að hugsa mig um og á mig renna nokkrar grímur. Því ég get ekki betur séð en um tapaða kynjabaráttu sé að ræða.
Einhverra hluta vegna er Laugarvegurinn fastur í mínum huga sem karllegur; hann er aðalgatan, liggur ofar en Hverfisgata, þar eru allir peningarnir og straumurinn liggur aðeins í eina óhaggaða átt. Hverfisgatan hins vegar er hálfgert gettó, búðirnar fáar og raka litlu inn, umferðin þrvöngvar sér í báðar áttir um mjóan veginn. Þar er afþreyingin; leikhús, bíó, pool. Amma bjó þar síðustu áratugi ævi sinnar og mamma ólst þar upp. S.s. Mér hefur alltaf þótt gatan hafa kvenlega eiginleika - sérstaklega við hliðina á hinum "æðri" partner sem Laugarvegurinn er. Nöfnin á götunum hjálpa svo auðvitað við að styrkja þessa ímynd (vegur - kk., gata - kvk.) Það sem bjargaði Hverfisgötunni frá algjörri hliðrun var sú staðreynd að á endasprettinum skákaði hún Laugarveginum og tók af honum bæði nafnið og almennilegan endapunkt í glæsilegum gatnamótum. Gamli Laugarvegurinn sem byrjaði með svo miklu stæl upp úr Bankastrætinu endaði í frekar sorlegu bílastæði og fékk ekki einu sinni ljós til að marka leiðarendann. Hverfisgata fékk ekki bara ljós - hún brunaði með sína farþega beint inn í Laugarveginn og skilaði þeim síðan í hendurnar á Suðurlandsbraut (annarrar kerlingar) skömmu síðar. Og þarna sat broddurinn á Laugarveginum, steingeldur á milli soldið sjabbí en glaðhlakkandi kerlingarbrauta.
Auðvitað mátti ekki svo við una.
Nú er búið að laga kynjaruglinginn. Bílastæðislíkinu hefur verið útrýmt þar sem núverandi Laugarvegur brunar beint í gegnum það og endurheimtir restina af sér. Fær nú óslitna braut og glæsileg ljós í lokin. Hverfisgatan hins vegar endar einhvern veginn í engu þar sem ljósin eru farin og aðeins strætó má aka síðasta spölin. Þar sem Laugarvegurinn tók áður við Hverfisgötunni er nú mjó einstefnugata sem liggur niður úr Laugarveginum, meðfram lögreglustöðinni og inn í Hverfisgötuna. Þvert á upphaflega einstefnuleið. Þannig að nú er Laugarvegurinn ekki aðeins búinn að loka fyrir allt flæði og uppstokkanir heldur er hann byrjaður að þröngva sér leið inn í hina áður óspjölluðu en frökku götu.
En týpískt.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli