sunnudagur, október 09, 2005

Ég finn að þetta er allt að mjakast í hljómfræðinni. Ég er farin að vera mun skemur en þessa fjóra-fimm klukkutíma sem hvert heimaverkefni tók í upphafi. Rúmur klukkutími nægir mér nú sem er mikill léttir. Munurinn felst í því að ég er orðin talsvert betri í að þekkja nótur og nótnasambönd án þessa að þurfa að hugsa mig um og samstíga fimmundir sjaldséðar núorðið. Hef ég fjandans tónheyrnina grunaða um að þessa auknu þjálfun í nótnaþekkingu og er mér eiginlega meinilla við að hún hafi öll þessi jákvæðu áhrif í mínu lífi.

Helgin hefur verið róleg að vanda. Ég kíkti á fjölskylduna á Eiðistorgi og lék við þau um stund og borðaði alls kyns nýbakaðar kræsingar. Lá annars bara í sófanum heima hjá mér og prjónaði af krafti. Trefillinn tilbúinn svo og húfan og einn vettlingur. Ég var svo upptekin af því að prjóna fyrir aðra í fyrra að ég gjörsamlega gleymdi sjálfir mér og er nú að bæta úr því svo um munar enda stefnir í snjó. Stebbi kíkti í heimsókn og pantaði húfu í stíl við vettlingana sem ég prjónaði handa honum í fyrra. Nú vantar mig bara meira af bleiku, gulu og hvítu garni – ef einhver skyldi eiga slíkt á glámbekk. Fór allt of seint að sofa og rumskaði ekki fyrr en á slaginu tólf þegar ég átti að vera mætt á æfingu. Æddi sem geðsjúk manneskja vestur í bæ og var mætt 15 mínútum eftir að ég vaknaði. Tók að mér að skrifa í æfingadagbók Hugleiks og geta áhugasamir lesið afraksturinn hér.

Sumir dagar (og helgar) enda sem lítið annað en upptalning.

Engin ummæli: