miðvikudagur, október 05, 2005

Ósköp getur maður verið smásálarlegur.

Ég er nefnilega að komast að því að ég hef næstum því jafn mikla ánægju af því að hatast út í eitthvað eins og að gleðjast yfir því. Hér sit ég og hlusta á útgáfu hljómsveitarinnar Toadies á Pixies slagaranum “Where is my mind” og uni vel þrátt fyrir allar mínar yfirlýsingar um almenna óbeit á hinni síðarnefndu hljómsveit. Mig er nefnilega farið að gruna að ég hati ekki beint Pixies – heldur fái ég eitthvert pervertískt kikk út úr því að lýsa yfir vanþóknun minni í hópi heitra aðdáenda (svo verð ég auðvitað sármóðguð ef einhver dirfist að rífa niður allt sem ég held upp á í lífinu.) Vellíðanin samfara þessu kikki er bara svo miklu meiri heldur en mögulega ánægja sem ég fæ út úr Pixies og þeirra tónlist. Ég vona bara að þetta þýði ekki að ég þurfi að endurskoða afstöðu mína til Oasis. Ég SKAL fara í gröfina með þá meiningu að Wonderwall sé versta lag allra tíma.

Svipað er uppi á teningnum þegar kemur að kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Ég hef sérstakt gaman af því að gera sem allra minnst úr bæði “Sex and the City” og “Desperate housewives” and verð víst að viðurkenna í hljóði að þetta eru ekki svo slæmir þættir. Ofmetnir já – en ekki slæmir. Og "The O.C."? Sæmilega vel gerð sápa sem hefur víst tilvistarrétt þótt ekki sé hún minn tebolli. Kannski er ég að meyrast óþarflega mikið í seinni tíð en maður vill nú ekki vera óþarflega ósanngjarn. Ekki í heimi sem býður upp á alheimsleiðindin “Invasion.”

Nú er ég víst komin út úr skápnum með það. Á það ekki að vera svo gott fyrir sálina?

1 ummæli:

Skotta sagði...

og líður þér ekki betur eftir að þessi sannleikur kom út úr skápnum?
Ertu ekki meiri manneskja eftir að viðurkenna þetta?

Og sennilega eru óvinir mínir í Oasis með ofmetnustu tónlistarmönnunum...og miklu ofmetnari en Aðþrendar eiginkonur. Þær eru að minnsta kosti nokkuð skemmtilegar.