miðvikudagur, desember 03, 2003

Mér tókst ekki að finna mér eiginmannsefni á einni viku og þurfti því að drösla fjandans dekkjunum inn í geymsluna sjálf. Einstaklega skemmtilegt verkefni þar sem geymslan var yfirfull af málningardollum, íþróttatöskum fullum að köðlum (!), bílstuðurum og ryðguðu brjotajárni. Illi leigjandi segir til sín enn á ný. Öllu þessu var vandlega pakkað inn í þetta litla pláss og dekkin (5 stk.) þurftu að fara á bakvið allt draslið. Ég var rétt búin að drepa mig í öllum hamagangnum - ef ekki vegna hrynjandi stuðara á hausinn eða blóðeitrunar af ryðgaða járninu þá var ég við það komin að hengja mig - fúslega - með kaðlinum. Eins og það væri ekki nóg kom leigjandi minn til mín í miðjum klíðum og kvartaði undan útidyralyklinum sínum. Hann var víst hættur að virka eins og hvert annað rafmagnstæki og hún hafði þurft að skríða inn um glugga til að komast í herbergið sitt. Við nánari skoðun kom svo auðvitað í ljós að henni hafði tekist að beygla lykilinn svo hann gekk ekki lengur í skrána. Hófst nú dauðaleit í íbúðinni minni að aukalykunum svo hún þyrfti ekki að halda áfram að skríða inn um kjallaragluggann eins og hver annar óþægur köttur (Gabríel.) Ég fann enga lykla og þurfti að láta hana hafa mína. Ætlaði svo að heimsækja foreldarana og fá lykla hjá þeim en nágranninn kom heim og ég fór að betla lykla af henni. Kom á daginn að hún hafði aldrei skilað mér aukalyklunum (grr) - ég hirti þá og kjallaralykilinn af henni og er ég nú vel lykluð og með stefnumót við Kringluna seinni partinn í dag til að ná mér í aukasett.

Engin ummæli: