föstudagur, febrúar 13, 2004

Sum netfyrirbæri er mér alveg fyrirmunað að skilja. Nú eru allir og hundurinn hans að blogga og er það hið fínasta mál. Sumir blogga vel aðrir illa, skemmtilega, leiðinlega - vottever. En hvað er það sem fær fólk til að blogga fyrir frægt fólk? Að hafa fyrir því að setja upp slíkt fyrirbæri og finna upp á misskemmtilegum færslum sem eiga að vera í anda persónunnar sem hefur að sjálfsögðu enga hugmynd að einhver hefur gerst svo hugulsamur. Ég skil næstum því þegar þetta er gert fyrir skáldsagnapersónur - það er ákveðin fan fiction sköpun í því - en hvers vegna í rauðglóandi andsskotanum er til blogg fyrir hina litlu, ófrægari, systur Britney - Jamie Lynn Spears?! Ef þú ætlar að stunda þessa iðju finndu þér verðugt viðfangsefni - ekki eyða ævi og púðri í krakkaorm sem hefur unnið sér það eitt til frægðar að deila DNA með poppstjörnu! Siggalára var í gær að ræða um ósanngjarna fordóma hjá sjálfri sér og vil ég nota þetta tækifæri til að koma út úr skápnum með það að ég er með brjálaða fordóma gagnvart fólki sem býr til sögur um frægt fólk sér og (væntanlega) öðrum til skemmtunnar. Því hún Jamie Lynn er ekkert einsdæmi. Það morar allt í svona bloggum (sérstaklega á Live Journal) og í reynd er afskaplega lítið af fjölmiðlagjörnu fólki sem hefur getu eða nennu til að blogga sjálft. Einu undantekningarnar frá þessari reglu - eftir því sem ég best veit - eru Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og Wil Wheaton fyrrum Star Trek undrabarn sem blogga bæði af miklum móð. Hver hefur í alvöru gaman af þessu og hvers vegna? Mér er fyrirmunað að skilja þetta. Þarna er um framsetningu á lífi alvöru fólks að ræða - framsetningu sem er fullkomlega ósönn og lituð af hvaða viðhorfum sem höfundur kann að hafa. Til að gera eftirlíkingu sem "besta" er passað að hvergi (nema kannski einhvers staðar vel falið með míkróstöfum) komi fram að ekki sé um hina eftirsóttu veru að ræða og svo er auðvitað fullt af fólki sem fellur fyrir þessu.

Það sem ég skil svo ekki heldur er hvers vegna þetta fer allt svona óskaplega mikið í taugarnar á mér.

Engin ummæli: