fimmtudagur, febrúar 12, 2004

"Tá á steini" eftir Ástu Gísladóttur

(Manneskja staulast inn á sviðið. Henni er augljóslega illt í hægri fætinum og á erfitt með að stíga niður.)

Manneskja: Ó vei ó nei ó mig auma! Ekki aftur, ekki enn á ný! Örlög hafa mig leikið grimmt! Karmað er ónýtt sem ofþurrkuð ullarpeysa. Nú mun ég aldrei giftast! (Ávarpar áhorfendur) Hver hérna inni hefur á ferðalagi sínu í gegnum þennan táradal misst jafnvægi á þrautargöngunni og slegið hinum viðkvæmu neðanhnjáafingrum utan í harða fyrirstöðu svo af hlaust ótvírætt táarbeinbrot?

(Skimar yfir salinn)

Manneskja: Hmm, hélt það yrðu fleiri. En hver hefur storkað hinum illa guði Pediomos með því að vanvirða helgidóm hans tvisar með öðru tábroti?

(Ekkert heyrist nema gnauðið í vindinum og smellir er daggardropar drjúpa á berg)

Manneskja: Enginn? Kommonn það hlýtur að vera einhver. Þú herra - sem lítur flóttalega undan - býrð án ef yfir vandræðalegum tábrotssögum. Það þýðir ekki að fela skömm þína undir pilsfaldi konu þinnar. En þrisvar? Það var svo djöfulli vont í þriðja skiptið.

(Alger þögn. Hýena skellihlær í fjarska)

Manneska (ofur lágt): Þannig að það hefur víst enginn annar brotið fjórar mismunandi tær við fjögur mismunandi tækifæri um ævina?

(Pínleg þögn)

Manneskja (við engan sérstakann): Var það eitthvað sem ég sagði? Eitthvað sem ég gerði?

(Manneskjan snýr með erfiðismunum við og tekur til við að skakklappast út af sviðinu. Þegar hún er næstum því kominn út af heyrast guðirnir skella upp úr allir sem einn.)

Pediomos: Hí á þig!

The End

Takk fyrir - er farin með stykkið á næstu einþáttungahátíð þar sem ég mun leikstýra ásamt því að leika aðahlutverkið.

(hugsanlega hægt að flytja allt leikritið án áhrifshljóða með "Waltzinblack" með The Stranglers sem eina undirspilið)

Engin ummæli: