miðvikudagur, apríl 14, 2004

"Bókmenntafræðingar alls staðar?"

Það eru alltaf einhverjir menn að villast inn á skrifstofuna mína. Núna í seinni tíð er það tíska að vera að leita að lögreglustöðinni og virðist sem einhverjar áttavilltar löggur á Hverfisgötu séu ekki með addressurnar sínar á hreinu. Minnst einu sinni á dag þarf ég að stýra villuráfandi innflytjendum, fyrrum/verðandi tugthúslimum og ökuskírteinishöfum í rétta átt: "Ekki 7A heldur 7B!" Það var einn slíkur að yfirgefa mig rétt í þessu. Kannaðist við mig úr bókmenntafræðinni og virtist greinlega sjá fyrrum samnemendur alls staðar í dag. Ruddist inn með ofangreindum orðum og undraðist verkefnaskipan alheimsins. Ég kom honum ekki almennilega fyrir mig en kunnuglegur var hann þó. Það er líka svo langt um liðið síðan ég var í námi að fólk er farið að breytast í útliti. Hvað ætli hinn meðal bókmenntafræðingur sé að gera í dag? Þegar ég var í námi var ekki friður fyrir hinni eilífu, klassísku spurningu: "Og hvað ætlarðu svo að verða?" Enginn viðmælenda gat ímyndar sér að nokkur mundi vilja ráða þessi grey. Margir svöruðu einfaldlega: "Ég ætla að verða hamingjusamur/söm" (fyrir utan Sigguláru sem sagðist ætla að verða forseti) og þaggaði það niður í þó nokkrum . Flestir fylgdu þó gjarnan fyrri spurningunni með þessari: "Ætlarðu svo að vinna á bókasafni?" Aldrei - og þá meina ég aldrei - stinga upp á því við bókmenntafræðing að hann og hans menntun sé best geymd á bókasafni. Það er næstum því eins slæmt og að gera ráð fyrir því að nemendur í hagnýtri fjölmiðlun stefni á þuluframa og að sjúkraþjálfara endi sem sjúkraliðar. Bókasafnfræði er gild starfsgrein sem krefst þriggja ára menntunnar og B.A. prófs og hefur ekkert með kjánalega hluti á borð við afbyggingu, nýsöguhyggju, sæborgir og semíótík að gera. En hvar er þá hin gilda starfgrein bókmenntafræðinganna? Þeir virðast a.m.k. hafa dreift sér í hin margvíslegustu störf ef þennan fyrrum samnemanda og vini mína er eitthvað að marka. Stóra spurningin er svo auðvitað - eru þeir allir hamingjusamir?

Engin ummæli: