sunnudagur, apríl 18, 2004

Þá er ævintýrið úti. Að þessu sinni. Lokasýning á Sirkus var í gærkvöldi og sýningin síðan kvödd með stæl úti í Eyjaslóð. Þar var mikið fjör og mikið gaman og eitthvað var ég framlág í morgun. Enn og aftur voru endurvakin kynni mín af einu besta lagi sem samið hefur verið nokkurn tímann - Næturljóð úr Fjörðum eftir Böðvar Guðmundsson. Nú finnst mér mál að einhverjir músíkalskir einstaklingar taki sig til og taki upp og gefi lagið út í einhverri mynd. Það er alveg ótækt að ekki sé hægt að hlusta á það við hvert tækifæri heldur þarf maður að vera svo heppinn að hitta á rétta leikfélagapartýið með réttum manni og réttum gítar. Er það von mín að einhverjir muni taka áskoruninni og gefa þessu undurfallega lagi nýtt líf um aldur og ævi.

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt
Eyddur hver bær hver þekja fallin
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt
Háreistum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar


Talandi um upptökur. Ég fór á föstudaginn í sakleysi mínu á kaffihús að hitta Nönnu og var svo í kjölfarið dregin inn í stúdíó með henni þar sem Hraun var að taka upp uppreisnarlag allra uppreisnarlaga - Rebelinn. Voru við settar í bakraddir í laginu og kom það víst bara furðuvel út. Þetta var í það minnsta hin besta skemmun. Ég hef ekki heyrt endanlega afurðina en lagið ku koma út eftir svona viku.

Engin ummæli: