miðvikudagur, júlí 21, 2004

Búningarnir eru komnir!  Hjúkk - nú getum við loksins farið að æfa fyrir alvöru.  Ég fæ þröngan grænan kjól með gullbryddingum á ermum og hálsmáli.  Verð ofboðslega frilluleg og engin tjöld í sjónmáli.  Ætla annars ekkert að tjá mig um æfinguna í gær - fá orð - lítil ábyrgð o.s.frv.

Mér til mikillar hrellingar heldur lífið áfram að gerast þótt ég sé að fíflast í einhverju leikriti.  Ég á t.d. heimili sem þarf víst að hugsa um.  Ég hef tekið þá ofur heilbrigðu ákvörðun að ekkert verði tekið til fyrr en ég sé farin í frí og er ég mjög sátt við hana.   Það er öllu verra með kjallarann þar sem pípur eru að gefa sig og ekkert heitt vatn að hafa.  Ég hef bara ekki tíma til að standa í þessu.  Hringdi samt í ofurbissí pípara sem stofnunin skiptir mikið við og get sennilega fengið hann á föstudaginn.  Verð líklegast að láta Helgu nágrannakonu sjá um öll smáatriði við að díla við hann.  Nema Sigga Lára hafi einhvern tíma.  Meh - þetta reddast.  Á meðan geta strákarnir í kjallaranum bara skellt sér í sund - nógu gott er veðrið.

Hvað umheiminn almennt varðar - pólitíkst veðurfar og menningalega strauma - veit ég ekki betur en að hann sé ekki lengur til.  Miðpunktur alheimsins er uppi í Heiðmörk og þeir sem mæta ekki og kíkja á listaverkið skulu fá að eiga mig á fæti (eða taka um fót minn - hvort heldur sem er.)

Góðar stundir.

1 ummæli:

Sigga Lára sagði...

Held ég verði alveg heima eftir hádegi og fram til átta á föstudag. Er að fara í leikhús með Vibbu. Fer létt með einn pípara ;-)