þriðjudagur, október 05, 2004

Úff, er bloggleti að leggjast yfir mig í bland við alla aðra leti? Veðrið hefur a.m.k. ekki verið framkvæmdahvetjandi og í gær var ekki um neitt annað að ræða en að skríða upp í rúm þegar heim var komið inn úr fárviðrinu. Hefði sennilega húkt þar það sem eftir lifði dags ef ég hefði ekki vaknað við Sigguláru í símanum um kvöldmatarleytið. Síðan tók við ófréttnæm sjónvarps- og prjónaseta.

Söngnámið gengur glimmrandi vel - eða mundi gera það ef ég væri duglegri að æfa mig. Mér finnst einhvern veginn ég bara geta æft mig þegar ég er ein heima - mér finnst ennþá hálf asnalegt að vera að góla svona - og ef ég nýti ekki þann tíma sem ég er ein heima nógu vel verður lítið úr æfingum.

Leiðinda fyrrverandi leigjandinn fékk í hausinn það sem hann átti skilið í gær. Hann hafði skilið eftir risastóran skáp á ganginum niðri í kjallara og mér tókst seint og síðar meir að fá ættingja hans til að flytja hann út. Skápræksnið fór nú samt ekki mjög langt og endaði á bakvið hús - beint fyrir neðan svefnherbergisgluggann minn - vafinn inn í plast. Marga nóttina hef ég sofnað út frá regninu berja plastið með látum eða vindinn feykja því. Marg oft var ég búin að ganga á ættingjana og biðja þá um að fjarlægja ferlíkið þar sem það lægi undir skemmdum þarna úti. Því þótt að skápurinn væri vel hulinn plasti á öllum hliðum var ekkert undir honum og ekki líklegt að regnið færi mjög vel með viðinn. Það var eins og rökræða við athyglisskertan gullfisk og skápurinn sat sem fastast. Þar sem ég lá uppi í rúmi í gær og fann hverja hviðuna á eftir annarri hrista húsið tók ég eftir hljóði sem vantaði. Ekkert plast. Ég kíkti út og þar lá skápurinn - eða leifarnar af honum - innan um plasttjásur - mölbrotinn og dreifður um garðinn. Og ég fann vandlætinguna og sjálfumgleðina hríslast um kroppinn. Ég hefði sjálf ekki geta skipulagt betri dauðdaga fyrir skáphelvítið. Ennþá er smá réttlæti til í heiminum. Hins vegar hafa líkurnar á því að eigandi komi og hirði brakið snarminnkað.

1 ummæli:

Ásta sagði...

Þau eru ennþá þar sem ég skildi við þau :þ