þriðjudagur, september 27, 2005

Fyrir mörgum, mörgum tunglum var ég á leið heim úr útskrifarferð á Rhodos. Á flugvellinum keypti ég tímarit til að lesa í flugvélinni og þetta reyndist innihalda viðtal við Winonu Ryder. Ég hef sennilega lesið all blaðið á hinu þriggja tíma flugi til Kaupmannahafnar því ég man sérstaklega eftir að hafa lesið viðtalið. Svosem ekki mikið að frétta nema ein setning sem sló mig svo gott sem untanundir:

"...but otherwise Winona Ryder brims with self-confidence. "Insecure people," she says, wrinkling her nose, "don't fry my burger." Precocious enough to hold her own with adults, she radiates the qualities of a child who has always been encouraged: a chatty, optimistic disposition ... "

O.s.frv.

(ég er ekki svona svakalega minnug - fann þennan bút á netinu)

Óöruggt fólk steikir s.s. ekki hennar borgara. "Hey!" hugsaði ég. Nákvæmlega það. "Hey!" Mér sárnaði. Þannig að ef ég hitti Winonu í einhverju partýi mundi hún strax finna óöryggisstækjuna af mér og fitja upp á nefið. Ég var 19 ára þarna - sennilega ári yngri en Winona - og ekki beinlínis að springa úr sjálfsöryggi. "Þvílíkur hrokagikkur," hugsaði ég svo, "og mér sem fannst hún ágætis leikkona." Greinlega hafa þessi orð hennar komið við þvílíkan kaun að ég hef aldrei gleymt þessu annars frekar ómerkilega viðtali.

Líða nú nokkur ár. Mitt sjálfsöryggi hefur aðeins vaxið ásmeginn þótt enn sé langt í land. Kannski hugsaði ég innst inni að hún hefði rétt fyrir sér - að óöryggi væri tilgangslaus og óaðlaðandi eiginleiki, jafnvel fyrirlitlegur. Ég er ekki viss.

Svo er ég eitt kvöld að horfa á sjónvarpið - sennilega "The Tonight Show " með Jay Leno á meðan það var á CNBC í íslensku sjónvarpi - þarna er litla Winona að mæta í sinn fyrsta spjallþátt að því er hún segir sjálf (þetta var löngu fyrir stelsýkiævintýrið.) Og viti menn - hún skelfur eins og lauf í vindi og segist vera dauðhrædd við að koma fram.

Bíddu, bíddu, bíddu... ungfrúin sem vildi ekki leyfa mér að grilla borgarann sinn ... að míga á sig af óöryggi?! Jay klappaði henni á öxlina og reyndi að róa hana allan tímann en hún hætti samt aldrei að titra.

Hver veit - kannski var hún að leika. Mér finnst það samt ólíklegt.

Það sem þessi upplifun (ef upplifun skyldi kalla) kenndi mér er að:

a)það bulla allir í viðtölum
b)sjálfsöryggi er af hinu góða - en óöryggi ber að sýna skilning
b)því yfirlætislegri sem yfirlýsendurnir eru þeim mun minni er skjálfandi hérinn sem þeir geyma án efa inni í sér.

Og hana nú.

Engin ummæli: