föstudagur, september 30, 2005

Það stefnir í ágætist dýragarð hjá mér.

Draumar mínir í nótt voru fullir af hvolpum. Stórum sætum St. Bernards hvolpum sem geymdir voru í búrum ásamt einhverjum hundategundum sem ég er ekki alveg viss um að hafi verið frá þessari plánetu. Og einum apa. Ég skil ekki alveg þetta dýrastreymi inn í undirmeðvitundina. Finnst yfrið nóg að tjónka við tvo ketti. Fyrir rest reyndust dýrin vera hættuleg - eitruð og mannýg jafnvel. Túlkiði nú.

Var á þeysingi allan eftirmiðdaginn og endaði úti á Granda á framhaldsaðalfundi Hugleiks. Var öll upptjúnuð þegar ég kom loksins heim kl. 11 og tókst ekki að sofna fyrr en klukkan var langt gengin í fjögur. Leikhúsumræður höfðu þó þau áhrif að í mér fæddist einþáttungur þar sem ég lá og bylti mér í hringi. Veit reyndar ekki hvort hann þolir dagsljósið. Enn sem komið er býr hann nú bara í heilaskúffu ásamt öðrum einmana hugmyndum.

3 ummæli:

Siggalára sagði...

Hí á þig! Vissi alltaf að í þér byggi lítið leikskáld sem væri bara að bíða færis.

Og mér skilst að dýradraumar virki einhvern veginn þannig að sæt og góð dýr séu fyrir slæmu en vond og ljót fyrir góðu. Sel það ekki sérlega dýrt, samt.

Varríus sagði...

Koma svo!

Skrifa kvikindið niður.

fangor sagði...

hripa niður hið snarasta..