þriðjudagur, september 27, 2005

Mér finnst vanta smá líf í þetta blogg. Hér eftir ætla ég að myndskreyta sem flestar færslur.



Ég var alltaf teiknandi þegar ég var krakki. Hversu margir vissu það um mig? Ég sótti slatta af myndlistarnámskeiðum og hafði mikið gaman af. Einhvers staðar á unglingsárunum ákvað ég víst að þar sem ég var augljóslega ekki efni í Kjarval þá hafði það ekkert upp á sig að vera að krota eitthvað. Og ég steinhætti því. Sem ég er í seinni tíð að uppgötva er frámunalega heimskulegt lífsviðhorf. Svo mikið er víst að ég græði ekkert á því að vera lélegri að teikna í dag heldur en þegar ég var krakki. Þar sem stóreflings endurvinnsla á nærri glötuðum hæfileikum er í gangi hér á bæ er ekki úr vegi að reyna að rifja upp eitthvað af teiknihæfileikunum sem mér hefur tekist að glutra niður síðust 15 árin.

Nú er bara spurningin: hvað skal teikna? Á mínum Barbí árum voru mér kökur mjög hugleiknar og setti ég gjarnan fram heil veisluborðin. Á hinum fyrstu táningsárum gætti eitthvað af portrait myndum - bæði sjálfsmyndir, annað fólk og ormétnar verur (sem ég hafði mikið dálæti á og sérlega gaman af að sjokkera fólk með.) Nú þegar ég bora í heilaafkimana eftir hugmyndum dettur mér helst í hug hlutir sem ég man að ég get gert nokkuð skammlaust. Epli - var ágæt í að teikna epli. Vasar og blóm af ýmsum gerðum. Augu og munnur. Tré. Frumleikinn ekki alveg að gera út af við mig. Þannig að við leitum á önnur mið.

2 ummæli:

fangor sagði...

hmm. skemmtilegt. þú gætir sérhæft þig í að teikna sófa, td. nú eða endur. man ekki eftir listamanni í svipinn sem sérhæfði sig í pennateikningum af öndum...

Svandís sagði...

Mér finnst þú flink. Ég panta hér með seríu af smámyndum (ca. 5cmx5cm) af trjám, eplum, öndum eða bara einhverju til að setja í litla tréramma. Og svo geisladisk. Takk fyrir það.