mánudagur, október 17, 2005

Það eru sumir frasar í íslenskri tungu sem væri alveg ágætt að fara koma á eftirlaun. Það er ekki oft sem ég hleypi út mínum innri feminista og kýs frekar að viðra skoðanir mínar á óopinberum vettvangi (í hópi vinkvenna, fjölskyldu eða vinnufélaga.) Stundum læðist hins vegar hinn frægi dropinn ofan í mælinn og þá er nauðsynlegt að létta á.

Úr Blaðinu í dag:

Kristján Þór Júlíusson, bæjarstjóri á Akureyri, laut í lægra haldi fyrir Þorgerði Katrínu með 424 atkvæði, en hann bar sig karlmannlega eftir kjörið og sagði að mikilvægt væri fyrir flokkinn að standa þétt saman að baki nýrri forystu.

Karlmannlega? Í alvöru krakkar. Hvað ef Þorgerður Katrín hefði tapað? Hefði hún þá haft tækifæri til að bera sig "karlmannlega"? Eða hefði hún verið stimpluð "kvenleg" og allur stuðningur hennar við flokkinn verið túlkaður út frá því orði? Þá hefði hún væntanlega þótt sýna veikleika með því að lúffa fyrir karlmanni - því "kvenleg" hefur jú allt annan merkingarauka. Er kannski einmitt málið að þarna höfum við karlmann að tapa kosningu fyrir kvenmanni – og það í Sjálfstæðisflokknum – sem fær blaðamanninn/konuna til að taka svona til orða. Eins og spekingarnir segja: maður spyr sig.

Er ekki alveg kominn tími til að hætta þessari kynbindingu – sérstaklega í fjölmiðlun? Er íslensk tunga virkilega svo karlrembumiðuð að í henni er ekkert gott orð að finna sem táknar reisn og stolti þrátt fyrir ósigur - og það án þess að vera að draga fólk í dilka eftir kynfærum?

Pirr pirr pirr...

Hana. Hægt að fylla á aftur.

2 ummæli:

Auður sagði...

Ég legg það til að við tökum upp þann sið að kalla alla þá sem okkur finnast kveifarlegir "kalla" (í staðinn fyrir kellingar). "Helvítis kall ertu". "Þið látið eins og hópur af köllum". Hljómar það ekki vel?

fangor sagði...

það er auðvitað tær snilld.