föstudagur, október 21, 2005

Leikæfing í gær eins og svo oft áður og mér er illt í ökkla. Klossar eru víst ekki ákjósanlegur skófatnaður í íþróttum. Bolti er mikil keppnisíþrótt og ég löngu hætt að fórna mér á gólfinu á Eyjarslóð. Síðast þegar ég gerði það uppskar ég bilaða taug í hné sem er ennþá til trafala.

Æfingin sjálf var ljúf þrátt fyrir að einhverja hefi vantað. Frekasti leikstjórinn skrapp af landi þannig að Siggalára og Sigrún sátu í leikstjórasætum og fórst það prýðisvel úr hendi. Á meðan verður hljómsveitin Hraunlegri með hverjum deginum sem líður þar sem Loftur bassaleikar er nú genginn til liðs við okkur.

Ég kíkti aðeins með ágætum hóp eftir æfing á Ungann í einn lítinn bjór en lét mig hverfa þaðan frekar fljótt á meðan ég hafði ennþá þrek til að keyra heim.

(Þessi færsla er farin að verða ansi æfingabloggsleg.)

Gat samt ekki farið að sofa án þess að glápa á hinn nýuppgötvaða raunveruleikaþátt "So you think you can dance." Svona þættir eru alveg prýðisgóð mannfræðistúdía. T.d. er greinilegur munur á bandarískjum og íslenskum ungmennum þegar kemur að hvers konar hæfileikakeppnum. Við Íslendingarnir erum aldir upp við að gera lítið úr öllum okkar mögulegu hæfileikum og þykir það smekkleysa mikið að trana sér of mikið fram nema sérstaklega sé beðið um það. Hroki og sýndarmennska fer ekki vel í landann. Því virðist vera öfugt farið í USA. Kannski vegna þess hversu mannmörg þjóðin er - þar þýðir ekkert að bíða eftir því að vera uppgötvuð/uppgötvaður - þú hreinlega týnist í mannmergðinni ef þú reynir það. Eina leiðin er hoppa upp og niður og garga yfir fjöldann "Ég er best(ur)!!" Það er líka gjarna viðkvæðið í SYTYCD. Hver kolómögulegi dansarinn á fæti öðrum sem ekkert getur en er alltaf jafn sannfærður um eigið ágæti. Þetta fólk á eflaust eftir að komast langt á einhverju sviði. Bara ekki í þessari keppni. Svo er það hrokafulli keppandinn sem er jafn góður og hann vill vera láta. Jafnvel þjálfararnir virðast viðurkenna það þótt þau augljóslega þola hann ekki. Enda eru aðrir keppendur frekar fúlir yfir því að atvinnudansari - sem hefur m.a. dansað með Britney Spears - skuli taka þátt í svona keppni. Einn þeirra lýsti því sem svo að það væri væri sem Mariah Carey tæki þátt í American Idol. Hins vegar stígur kauði ekki í vitið og á það eflaust eftir að verða honum að falli. Hvaða heilvita maður segir í myndavélina - rétt eftir að hafa verið hrósað af þjálfurum - að hann sé sjálfur miklu betri dansir en þeir? Kjánaprik.

Sko - mín bara komin í ham :þ

2 ummæli:

fangor sagði...

mér finnast þessir þættir þúsund sinnum betri en idolið. hér er borin virðing fyrir keppendum, aðaldómarinn kurteis og almennilegur og fólk með alvöru hæfileika að taka þátt. hef ekki ennþá séð þessa hæfileikalausu dansara sem þú ert að tala um?
það var reyndar írsk tröllastelpa sem dansar riverdance sem lenti í vandræðum með aðra dansstíla, en aðrir fannst mér nú nokkuð hreyfanlegir bara.

Ásta sagði...

Þau voru auðvitað öll hreyfanlega upp að vissu marki - annars hefðu þau ekki komist þetta langt. Ég var hins vegar löngu hætt að bera skynbragð á það hvað væri gott og hvað slæmt og treysti alfarið á dómgrein þjálfaranna sem að víluðu það ekkert fyrir sér að stimpla hina og þessa hæfileikalausa. Það sem mér fannst athyglisvert var að sjálfánægjan virtist ekkert minnka þótt enginn annar hefði trú á danshæfileikunum.
Og já - þúsund sinnum skemmtilegra en Idol :)