miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Hmm... bíó. Slíkt ku vera vinsæll áfangastaður samtímamanna. Sjálf hef ég ekki stigið inn í slíkt síðan ... síðan ... ég man ekki síðan hvenær.

Það er af sem áður var þegar vasapeningarnir fyrir vikuna voru reiknaðir út frá verði á bíómiða + smá meðlæti og voru iðullega brúkaði í það. Þá var heldur ekki snobbast í vali á mynd og kíkt á nær hvað sem er.

Ég held, svei mér, að ég hafi ekki farið síðan War of the worlds var í bíó og eru það váleg tíðindi. Í stað þess hef ég horft á svo marga klukkutíma af raunveruleikasjónvarpsefni að mig sundlar við tilhugsunina.

Reyndar hefur haustið verið annasamt sem aldrei fyrr og ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið að gera fullt af skemmtilegum og uppbyggilegum hlutum sem koma hæglega í staðinn fyrir bíóferðir. En ég sakna þeirra nú smá...

Nú er því tími til aðgerða. Bæði Harry Potter og Serenity í bíó og mér ekkert að vanbúnaði. Það er bara þetta með að finna tíma og tækifæri...

Í öðrum fréttum: andskotans, djöfulsins hljómfræðiprófið sem ég sat sveitt yfir í fjóra tíma síðasta mánudag varð mér ofviða og ég þarf að taka það aftur. Annað hvort á laugardagsmorgun kl. 9 (verður það ekki gaman?) eða næsta miðvikudag. Og það er engin leið að læra fyrir það því ég geri ekkert nema klaufavillur (stækkaðar tvíundir og ferundir hirst og her.) Fyrir þá sem ekki þekkja til þá felst einmitt djöfulleiki hljómfræðinnar í því að kunna aðferðirnar en gera svo villur sem þarf áralanga þjálfun til að koma auga á. Fuss.

Viðbót: Kalli og súkkulaðiverksmiðjan! Auðvitað. Tveir og hálfur mánuður er samt alveg nógu langur tími milli bíóferða.

mánudagur, nóvember 28, 2005

Þetta er að ganga (og Skotta var víst búin að "kítla" mig þarna um daginn er ég hafði sem mest að gera með einhverju svipuðu):

Hlutir sem ég ætla að gera áður en ég dey:

1. Klára Masters ritgerðina
2. Finna vinnu sem hentar mér
3. Eignast börn
4. Búa í Danmörku
5. Læra á gítar

Hlutir sem ég get ekki gert:

1. Haldið góðu jafnvægi
2. Heklað
3. Haldið geðheilsu á flugvöllum
4. Talað þýsku
5. Djammað sem það væri enn 1999

Hlutir sem ég get gert:

1. Prjónað
2. Blístrað eins og dómaraflauta
3. Fundið jólagjafir handa fólki
4. Unnið ykkur öll í Miner 2049er
5. Talið upp allar Ísfólksbækurnar ásamt aðalpersónum og atburðarrás. Það sama á við um Buffy þætti.

Hlutir sem heilla mig við hitt kynið:

1. Ég verð að herma eftir Auði og segja einhver ógreinanlegur x-faktor
2. Varir
3. Kímni
4. Falsleysi
5. Góðmennska

Hlutir sem fæla mig frá hinu kyninu:

1. Töffaraskapur
2. Mikilmennskubrjálæði
3. Ánægja yfir eigin kroppi
4. Að geta ekki hlegið að sjálfum sér
5. Andúð á konum

Frægir menn sem heilla mig :

Frægð og stjörnudýrkun fer óendanlega mikið í taugarnar á mér í seinni tíð - eins og ég var nú upptekin af henni hérna áður fyrr. Ég skal samt reyna:

1. Colin Firth
2. Ryan Reynolds
3. Daniel Dae Kim (nauðsynlegt að hafa Lost-meðlim á listanum)
4. Heath Ledger og Jake Gyllenhaal (svona til hálfs hvor um sig)
5. Uhhh... segjum þetta gott

Hlutir sem ég sé akkúrat núna:

1. Rekstraryfirlit lóðar
2. Gagnslausa hátalara (hljóðkortið í tölvunni er bilað)
3. Diet-Pepsi í bjórglasi með grænu röri
4. Labello Caregloss & Shine
5. Gleraugu

laugardagur, nóvember 26, 2005

Í gær átti að vera sýning en bannsettur draugur fortíðarkvala ákvað að heimsækja Nönnu og hann verður víst að fá að sinna erindi sínu - ekki hægt að rusla þessu bara af. Sýningin féll því niður og ég gat farið í afmælið til mágkonu minnar. Eitthvað vildi partýstuðið ekki láta kræla á sér og þegar haldið var niður í bæ við níunda mann fór ég bara heim. Það er voðalega skrítið af hafa heilan laugardag fyrir ekkert nema hangs og hef ég það alltaf svo sterkt á tilfinningunni að ég eigi að vera að gera eitthvað. Ákvað því að gera eitthvað og ætla að búa til sushi. Á sennilega eftir að búa til alltof mikið og eru allir sem lesa þetta velkomnir í mat.

Nýtt lag komið í spilarann; Jólarifrildið - svona í tilefni af því að aðventan byrjar á morgun.

fimmtudagur, nóvember 24, 2005

Einhvers staðar á ég niðurgrafið kort í Hreyfingu. Kannski kominn tími á að nýta það á ný fyrst maður frumsýndur og svona. Mjöðmin mín vill ekki vera til friðs nema ég hreyfi hana nokkuð reglulega. Hún var t.d. ekki alveg að fíla gólfið á Nasa þar sem Jólaævintýrisleikhópurinn plantaði sér til að fylgjast með útgáfutónleikum Ampop í gærkvöldi. Sem var þar fyrir utan hin besta skemmtun. Ég hef nokkru sinnum séð Ampop á tónleikum en aldrei jafn mögnuðum og þeim sem við* fylgdumst með í gærkvöldi. Þeir voru lifandi á sviði og flutningur sífellt þéttari og kraftmeiri. Ég verð að segja það - mér finnst þeir hljóma betur "læf" heldur en í upptökum og þykir mér líklegt að orsakarinna sé að leita í ofurtrommuleik Jóns Geirs. Það var líka gaman að fylgjast með andlitum Hugleikaranna sem voru flest allir á svipinn líkt og 1 árs barn sem fær að smakka súkkulaði í fyrsta sinn. "Ég vissi ekki að þetta yrði svona gott" svipurinn :)

Já og ég vek athygli á spilaranum hér til hægri sem mun framvegis spila mismunandi lög úr Jólaævintýrinu. Tekið er á móti óskalögum.


_____________
* Ég og leikhópurinn. Eða kannski ég og mjöðmin. Fyrst að hinar tvíeinu Siggalára og Nanna vilja ekki tala um sjálfa sig í fleirtölu er kannski best að ég geri það.

þriðjudagur, nóvember 22, 2005

Jólahreingerning

Rétt rúmur mánuður til jóla og loksins hægt að byrja að píra augun í allan undibúninginn. Skreytingarnar fara nú ekki upp fyrr en í fyrsta lagi á aðventu – ef svo snemma – en sennilega kominn tími til að huga að gjöfum og þrífa gardínurnar. Á mínu heimili stendur yfir þessa stundina all svakaleg yfirhalning og það besta er að ég þarf ekkert að koma nálægt henni. Þegar ég kem heim eftir tíma í dag verður baðherbergið skínandi hreint ásamt megninu af stofunni. Mágkona mín elskuleg fékk nefnilega þá flugu í höfuðið að hún ætti að gjalda mér alla barnapössun, bæði fyrr og síðar. Nú er það mér ekki óljúft að eyða tíma með bróðurbörnum mínum en þegar einhver næstum því grátbiður um að fá að þrífa heimilið þitt hvernig er hægt að segja nei? Sérstaklega þar sem ég hef ekki fundið mikinn tíma eða orku í það sjálf upp á síðkastið og orðið “vanþörf” er beinlínis hlægilegt þegar það er mátað við ástandið. Á hún allt heimsins þakklæti og knús skilið fyrir fyrirhöfnina.

Ég kíkti við heima í hádeginu til að færa henni mat og taka á móti tryggingamanni og kom svo til baka á skrifstofuna fyllt hreingerningarmóði. Henti út tveimur bloggurum sem er útséð með haldi nokkurn tímann áfram og bætti við í staðinn tveimur Hugleikurum sem eiga miklu frekar skilið að vera á listanum. Líður vel með dagsverkið.

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Aldrei hélt ég að ég myndi segja þetta; en fyrst við lifum í landi þar sem ekki aðskilið ríki og kirkja hvernig væri nú að halda hvíldardaginn heilagan og EKKI BORA Í STEINVEGGI Í NÆSTU ÍBÚÐ ÞEGAR MAÐUR ER AÐ REYNA AÐ SLAPPA AF EFTIR VEL HEPPNAÐ FRUMSÝNINGARPARTÝ!

Ahemm.

Frumsýning á Jólaævintýrinu tókst með eindæmum vel - smávægileg klikk eru bara skemmtileg þegar allir eru það vel með á nótunum að auðvelt er að snúa sig út úr þeim. Ég held svei mér þá að við séum með hina fullkomnu sýningu í höndunum hvað áhorfendamarkhóp varðar. Á genaralprufu samanstóð salurinn ca. 75% af krökkum sem fundu svo til með Tomma litla og lifðu sig inn í alla dramatíkina af heilum hug. Þau voru minna að fatta klámkjaftinn í Móra eða vísanir í Miklabæjar-Sólveigu. Frumsýningargestir voru hins vel upplýstir og með sóðalegan hugsunarhátt en eitthvað urðu raunir Tomma litla og fjölskyldu hans afskipar. Ja, afskiptari í öllu falli. En það er allt í lagi því þarna er klárlega að finna eitthvað fyrir alla.

Síðan var skálað og öllum klappað vel í bak og fyrir og síðan skálað soldið meir ... og meir ...

Ég kom heim til mín kl. ca. 6 um morgun sem segir allt sem segja þarf ef menn hafa einhvern tímann upplifað Hugleikspartý.

Nú er kominn tími til iðrast Ebbi að sækja bílinn.

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Nú hef ég verið að góla jóla- og jólatengd lög í meira en mánuð með Hugleikshópnum en á ennþá eftir að finna þetta eftirsóknarverða jólaskap. Ég hef nú margoft gert mig seka um að óska öllum nærstöddum gleðilegra jóla en bitri sannleikurinn er sá að ég hef aldrei meint það. Maður á kennski ekki að láta slíkt fréttast þegar maður þykist ætla að frumsýna jólaleikrit eftir tvo daga? En þar var nefnilega fjandans kýrin stungin til bana. Dagsetningin 19. nóvember hefur verið brennimerkt í huga mér og ómerkilegheit eins og jól eftir 5 vikur komast alls ekki að. Í fyrsta lagi eftir frumsýningu.

Forgangsröðin er sem hér segir:

1.Halda heilsu fram yfir laugardagskvöld
2.Frumsýna
3.Jól

Einhvers staðar á milli frumsýningar og jóla á ég svo víst afmæli en ég stórefast um að ég hafi getu eða nennu til að gera nokkuð í því í ár. Enda ártalið eingöngu merkilegt fyrir þær sakir að vera sæmilega myndrænt.

miðvikudagur, nóvember 16, 2005

Já hjá fuglum og kræklingum

Ég fæ allar bestu setningarnar í leikritinu. Það er sko ekki spurning.

Alveg snælduvitlaust að gera hjá mér í vinnunni og ég ætti í raun ekki að gefa mér tíma til að blogga... Iss, geri það samt.

Var að dunda mér við það í hádeginu að skrifa upp setningarnar mínar úr leikritinu og vona að það hjálpi við að festa þær í sessi (kann þær alveg - það er bara þetta með að fiska þær upp úr minninu á réttum augnablikum.) Hef lúmskan grun um að restin af leikhópnum sé í svipaðri stöðu og við það að bresta í kjánalegheit af einskæru stressi.

Ég fór að fá Buffy-flashbökk með meiru og samsama mig kannski óþarfleg mikið hinum ágæta Buffy þætti Restless. Sjaldan hefur þessi bútur virkað jafn lógískur:



5 mb bútur til dánlóds

Sölumaður deyr - Joss Whedon stæl (ef JW hefði fæðst á Íslandi hefði hann án efa orðið Hugleikari)

Kúreki: Well, hello little lady. Can I hold those milk pails for you?
Mjaltakona: Thank you but they'er not very heavy. Why have you come to our lonely small town which has no post office and very few exports?
Kúreki: I've come looking for a man. A sales man.


Það sem maður finnur á glámbekk á harða diskinum sínum. Fyrir óinnvígða er um draumaatriði að ræða.

Ég ætlaði að fara að segja að það væri ca. svona sem mér liði en komst þá að þeirri niðurstöðu að svo er barasta alls ekki. Miklu frekar tilhlökkun og eftirvæntingarkvíði. Það er helst ég og Riley (kúrekinn) séum að ná saman... mætti snemma, komin með búning, ógisslega ánægð.

Þetta var slugs dagsins.

þriðjudagur, nóvember 15, 2005

Jólaævintýri Hugleiks er skemmtilegasta leikrit sem ég hef tekið þátt í. Segi og skrifa.

Eða kannski hef ég bara aldrei verið í jafn stóru hlutverki. Gæti verið.

Nei. Þetta er bara gaman. Æfingarnar allar farnar að vera vel smurðar og eitthvað sem lagast og þéttist með hverri yfirferð. Ný fynd eru alltaf að fæðast og allir eru að gefa ca. 140% af sér í þetta. Er að hlusta á upptökurnar af lögunum í þessum skrifuðu orðum. Mér finnst bara ennþá svo ótrúlegt að þetta skildi hafa verið hrist fram úr ca. 25 ermum á einum degi. Meira að segja lagið "mitt" er ekki jafn slæmt og ég var búin að mikla fyrir mér og grunar mig að það megi ég mixurum þakka. Annars er lagið hennar Ragnheiðar í sérlegu uppáhaldi.

Annað sem var hrist fram úr ermum – að þessu sinni minni og föður míns – var eitt stykki jólatré eftir miðnætti síðustu nótt. Hann fékk að halda á borvélinni en – þú’st – ég sá um hönnun ...

Var fyrir rest farin að valhoppa af kæti þarna í bílskúrnum yfir því að þetta skyldi loksins vera að skríða saman.

Jólin eru komin í leitirnar...


Viðbót: Ég gekk að því sem gefnu að fólk vissi að jólatréð sem smíðað var síðustu nótt væri að sjálfsögðu fyrir sýninguna. Sumir héldur víst *hóstAuðurhóst* að ég væri að ganga af göflunum.
Það er allt önnur og miklu lengri saga að segja frá því.

sunnudagur, nóvember 13, 2005

Ég hef Roger Waters og félaga grunaða um að hafa samið The Wall sérstaklega handa hinni annasömu húsmóður. Kannski ekki meðvitað - en einhvers staðar undir niðri hefur mallað meðkennd með þeim sem vinna eldhúsverkin. Dag eftir dag, ár eftir ár, aftur og aftur. Okei kannski ekki beinlínis mér sem aldrei nennir neinu - en öllum hinum. Platan hentar a.m.k. alveg einstaklega vel sem undirleikur við uppvaskið – sér í lagi eftir miðnætti þegar það er nauðsynlegt að hafa eitthvað með smá attitúdi þegar á að rusla þessu af á einu bretti með afgangsorkunni (en þó ekki vekja nágrannana.) Meðal uppvask dugar til og með Goodbye blue sky og er það aldeilis gott en svo byrjar Empty Spaces/What shall we do now og þá er vonlaust að hætta og viti menn; eldavélin fær almennilegt skrúbb.

What shall we do - Pink Floyd

miðvikudagur, nóvember 09, 2005

Þá jólatréð gamla með lyngi og litpappír skreytum

Nýjasta trendið í Ameríku eru svokölluð "öfug jólatré" - upside-down Christmas trees.

Þetta ku vera endurvakning á heiðnum 12. aldar sið nema hvað að hér er markmiðið að koma sem flestum pökkum undir tréð án þess að þurfa að klást við leiðinda greinar. Eru þau þá annað hvort hengd úr loftinu eða toppurinn settur á stand.




Ég á hreinlega ekki orð. Fer stjarnan þá á botninn?

þriðjudagur, nóvember 08, 2005

Jæja - ég þarf ekki nýja lifur eða löpp. Fékk úrskurðinn "fullkomlega heilbrigð" frá lækninum og verð víst að hætta að kvarta. Sennilega var ég með einhvern leiðinda og langvarandi vírus að gera óskunda hér og þar - laumulegan spellvirkja sem lét sér nægja að krota á veggi og brjóta loftnet af bílum en sleppti því að sprengja nokkuð í loft upp. Því var ég alltaf þreytt og með lítil skrítin einkenni sem saman gátu þó ekki stafað "veik." Ætla að halda upp á þetta ofurhreysti með því að bólusetja mig gegn lifrarbólgu (sem ku vera æskilegt þegar maður fer til Langtíburtistan.)

Nú fer að líða að frumsýningu eins og sést á glæsilegri auglýsingunni hér að neðan. Ég hef blendnar tilfinningar til þess áfanga. Vissulega verður gaman að frumsýna en um leið setur að smá kvíða þegar maður hugsar um hversu lítill tími er eftir. Vinna, skóli, líkamsrækt og leikfélaga hafa krafist fullmikillar orku af mér undanfarið og hugsa ég að ég verði talsvert fegin þegar álagið minnkar um næstu mánaðamót. Á móti kemur að þetta er bara svo gaman!

Á milli tveggja elda...

... og alltof sein í tónheyrn!

mánudagur, nóvember 07, 2005



Allt að gerast.

12 dagar til stefnu...

föstudagur, nóvember 04, 2005

Ég hélt í alvöru að ég væri að veikjast í gær. Stakk af úr vinnunni á hádegi og fór heim, gúllaði í mig Trópí og skreið upp í rúm. Lá þar í móki fram að kvöldmat og mætti síðan (svo til) hress á æfingu.

Kenni mér einskis mein í dag.

Þannig að annað hvort hefur þessi aðferð hjá mér virkað eða ég er bara svona mikill aumingi. Dæmi nú hver fyrir sig.

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Ég finn fyrir þrá eftir Trópí.

Það gerist undir einum kringumstæðum - og aðeins einum: þegar ég er að veikjast (líkaminn kallar á c vítamín.)

Sjitt, fokk, dam, bitsj, hell.

Er tilbúin til að selja sál mína fyrir öflugri hvít blóðkorn.

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Mér áskotnaðist - algjörlega fyrir tilviljun - tveir miðar á frumsýningu hjá Íslenska dansflokknum næstkomandi föstudag. Ég átti erfitt með að neita miðunum en veit núna varla hvað ég á að gera við þá. Ég kann ekkert á danssýningar og hef aldrei séð slíka í návígi (ef frá er krakkasýning í Borgarleikhúsinum sem Heba tók þátt í og Magadanssýning í Tjarnabíói fyrr á árinu.) Svo þarf víst að staðfesta komu í dag. Hvernig veit ég að mér líkar ekki danssýningar ef ég hef aldrei farið á eina slíka almennilega?

Þó hef ég það óþægilega á tilfinningunni að nærvera mín þarna væri álíka viðeigandi og á frístælkeppni í Fellabæ. Nú eða rímnaflæði eða fótboltakeppni eða súludansstað eða árshátíð Sjálfstæðisflokksins eða einhverjum álíka vettvangi þar sem ég er líkleg til að líða sem fiski á þurru landi. Þetta dansbatterí er heimur sem ég hef enga þekkingu á og á einfaldlega ekki heima í. Formlegt dansnám mitt hófst og endaði með stuttu bellettnámskeiði þegar ég var sex ára. Ég man ekki sérstaklega eftir dansinum en var hrifin af búningum (svört samfella yfir svartar sokkabuxur sem ég skreytti með gervirósum og fannst ég ógurlega fín - einhvers staðar er til mynd...) Ég man heldur ekki eftir því af hverju ég hætti en fyrst að það eftirminnilegasta var fyrrnefndur (og stórglæsilegur) búningur hefur ástæðan sjálfsagt verið góð. Ég hef sjaldan og seint verið kennd við þokkafullar hreyfingar.

Er ekki æfing þetta kvöld sem getur tekið af mér ákvörðunina?