fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Nú hef ég verið að góla jóla- og jólatengd lög í meira en mánuð með Hugleikshópnum en á ennþá eftir að finna þetta eftirsóknarverða jólaskap. Ég hef nú margoft gert mig seka um að óska öllum nærstöddum gleðilegra jóla en bitri sannleikurinn er sá að ég hef aldrei meint það. Maður á kennski ekki að láta slíkt fréttast þegar maður þykist ætla að frumsýna jólaleikrit eftir tvo daga? En þar var nefnilega fjandans kýrin stungin til bana. Dagsetningin 19. nóvember hefur verið brennimerkt í huga mér og ómerkilegheit eins og jól eftir 5 vikur komast alls ekki að. Í fyrsta lagi eftir frumsýningu.

Forgangsröðin er sem hér segir:

1.Halda heilsu fram yfir laugardagskvöld
2.Frumsýna
3.Jól

Einhvers staðar á milli frumsýningar og jóla á ég svo víst afmæli en ég stórefast um að ég hafi getu eða nennu til að gera nokkuð í því í ár. Enda ártalið eingöngu merkilegt fyrir þær sakir að vera sæmilega myndrænt.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Hmmm... Við stöllur höfum verið spurðar af hverju við séum ekki búnar að skreyta búðina og ég verð bara að segja alveg eins og er að mér obýður alveg hreint jólamanían á Íslandi í dag. Það kemur ekki til álita að missa sig fyrr en á aðventunni. Og hana nú.

Þórunn Gréta sagði...

Tölurnar í ellefusinnumtöflunni eru miklu flottari en tölurnar í tíusinnumtöflunni... þess vegna ærið tilefni til að fagna. Og ég fer sjaldnast í jólaskap fyrr en ég er komin úr aðfangadagssturtunni og rjúpnalyktin fyllir vitin.