miðvikudagur, nóvember 30, 2005

Hmm... bíó. Slíkt ku vera vinsæll áfangastaður samtímamanna. Sjálf hef ég ekki stigið inn í slíkt síðan ... síðan ... ég man ekki síðan hvenær.

Það er af sem áður var þegar vasapeningarnir fyrir vikuna voru reiknaðir út frá verði á bíómiða + smá meðlæti og voru iðullega brúkaði í það. Þá var heldur ekki snobbast í vali á mynd og kíkt á nær hvað sem er.

Ég held, svei mér, að ég hafi ekki farið síðan War of the worlds var í bíó og eru það váleg tíðindi. Í stað þess hef ég horft á svo marga klukkutíma af raunveruleikasjónvarpsefni að mig sundlar við tilhugsunina.

Reyndar hefur haustið verið annasamt sem aldrei fyrr og ég get ekki sagt að ég hafi ekki verið að gera fullt af skemmtilegum og uppbyggilegum hlutum sem koma hæglega í staðinn fyrir bíóferðir. En ég sakna þeirra nú smá...

Nú er því tími til aðgerða. Bæði Harry Potter og Serenity í bíó og mér ekkert að vanbúnaði. Það er bara þetta með að finna tíma og tækifæri...

Í öðrum fréttum: andskotans, djöfulsins hljómfræðiprófið sem ég sat sveitt yfir í fjóra tíma síðasta mánudag varð mér ofviða og ég þarf að taka það aftur. Annað hvort á laugardagsmorgun kl. 9 (verður það ekki gaman?) eða næsta miðvikudag. Og það er engin leið að læra fyrir það því ég geri ekkert nema klaufavillur (stækkaðar tvíundir og ferundir hirst og her.) Fyrir þá sem ekki þekkja til þá felst einmitt djöfulleiki hljómfræðinnar í því að kunna aðferðirnar en gera svo villur sem þarf áralanga þjálfun til að koma auga á. Fuss.

Viðbót: Kalli og súkkulaðiverksmiðjan! Auðvitað. Tveir og hálfur mánuður er samt alveg nógu langur tími milli bíóferða.

4 ummæli:

fangor sagði...

já, fjandinn bara. förum í bíó í næstu viku. serenity fyrst áður en henni verður kippt úr sýningum

Skotta sagði...

vitiði það að ég held að ég viti ekki einu sinni hvernig bíóhús líti út lengur, það er það langt síðan ég fór í bíó.

frizbee sagði...

Er "staekkud" tvíund til? Ég stód í theirri meiningu ad heilt tónbil frá grunntóni vaeri stór tvíund og hálft tónbil lítil...

annad hvort okkar er ad gera alvarlegan feil

Ásta sagði...

Stækkaðar tvíundir eru til - en yfirleitt ekki æskilegar. Það fer eftir því hvað tónarnir eru kallaðir. C og es er lítil þríund - en c og dís er stækkuð tvíund (alveg eins og C og Des er lítil tvíund en C og Cís er stækkuð einund - þótt á nótnaborði líti hljómbilið eins út.) Það þýðir að ef þú ert að gera hljómaröð þar sem ekki má fara í hækkaðan sjötta eða sjöunda tón í moll með stækkaðri tvíund og þú ferð með tóninn frá c upp í dís þá verður kennaranum ekki skemmt.