föstudagur, maí 28, 2004

Ég hef sveimað um í doða undanfarna daga. Hef lagt mig á hverjum degi, farið alltof seint að sofa og almennt ekki komið neinu í verk. Svo var ég að átta mig á því í dag að nú er þriggja daga helgi! Hvernig í ósköpunum fór það fram hjá mér? Venjulega hefði ég talið dagana ; þrír heilir dagar í röð fyrir alvöru slæpingjahátt! Annars er ég viss um að ég ætlaði að gera eitthvað um þessa helgi en get ekki fyrir mitt litla líf munað hvað. Reyta arfa? Þrífa bíl? Detta í það?
Jú ég þarf víst að fara upp í Árbæ einhvern tímann um helgina og kíkja á íbúð fyrir Emblu. Hún ætlar að skilja kallinn eftir í Svíþjóð og flytja aftur til landsins seinni partinn í júní og þar sem hennar eigin íbúð hefur verið leigð út næsta árið er ekki um annað að ræða en leigja aðra íbúð. Þetta er reyndar allt frágengið - aðeins eftir að skrifa undir alla rétta pappíra sem gerist um leið og ég fæ umboð frá Emblu en leigutakinn var eitthvað nervus við að leigja út íbúð án þess að nokkur hefði skoðað hana þannig að það fellur í minn hlut að gefa lokasamþykki. Skyndilega orðin prókúruhafi og dómari! Þetta gerist þegar maður segir "láttu mig vita ef ég get gert eitthvað." Ég er nú samt ekki að kvarta - ekki mikið mál að kíkja á eina íbúð og krota á nokkra pappíra.
Æfing í kvöld (ef hún fellur ekki niður - virðist vera að ganga þessa dagana - gæti svosem vel verið að búið sé að fresta henni - pósturinn minn hefur ekki virkað í allan dag) þannig að ég missi af American Idol (ó. nei.) - skiptir nú ekki miklu máli. Það er skemmtilegast að horfa á þetta með rétta fólkinu og þar sem að það fólk verður annað hvort úti á landi eða á Spáni missi ég ekki af miklu. Veit líka hver vann.
Annars er ég með hugann við bíó þessa daga. Kill Bill Vol. 2 kom einhverju af stað í blóðinu og nú langar mig bara aftur og aftur í bíó. Efst á listanum er The Day after Tomorrow - ekkert jafnast á við almennilega stórslysamynd - eða í þessu tilfelli stór-náttúruhamfaramynd. Langt síðan nokkur hefur rótað upp almennilegri paranóju hjá heimsbyggðinni - í raun ekki síðan kjarnorkuváin var og hét (ég meina hélt einhver í alvöru að geimverur/Godzilla mundu gera innrás eða lofsteinar falla á jörðina?) Nokkrar aðrar sem komast á listann: Saved, Harry Potter and the prisoner of Azkaban og The Stepford Wives sem hlýtur að vera forvitnileg ef ekkert annað. Hef glettilega lítinn áhuga á Troy - þrátt fyrir að hafa lesið bókina. Þetta gerist oft þegar myndir eru yfir-hæpaðar á leikurunum og tæknibrellunum einum saman. Ég á að fara að sjá þessa mynd af því að Brad Pitt er klæðalítill í henni, Orlando Bloom! og skipin eru ógeðslega, ógeðslega mörg! Nei takk.

Engin ummæli: