föstudagur, maí 21, 2004

Svona fyrirvaralausir frídagar í miðri viku setja allt úr skorðun. Ekki að uppstigningadagur hafi verið með öllu fyrirvaralaus - ég var bara ekki búin að búa mig undir hann. Ég brást við á eðlilegan hátt - fór á fyllerí. Auður var að djamma í vinnunni með hinum ölkunum á Fréttablaðinu á miðvikudagskvöldið og þegar bjórinn var búin rölti hún yfir til mín og hellti mig fulla. Þegar hún kom var ég bláedrú og þegar við fórum niður í bæ ca. einum og hálfum tíma síðar var ég orðin mjúk og meyr og vel marineruð. Við tókum stefnuna á 22 og þegar þangað var komið uppgötvaði ég mér til mikillar gleði að ég hafði gleymt öllum peningum og peningaígildum heima og þurfti því að treysta á góðmennsku ókunnugra það sem eftir var nætur. Eins og alltaf eykst okkur almenn greind og kænska með áfengisdrykkju og því var litla ferðataflið mitt rifið upp og vitsmunum att saman. Fyrri skákin einkenndist af óhóflegum drápshita og sjálfsmorðslöngunum og leið ekki á löngu áður en báðir kóngar voru orðnir ansi vinafáir og samið um jafntefli.
Það voru því full varkárar skákkonur sem fóru í seinni skákina og tók hún dágóðan tíma. Mörg mistök voru gerð á báða bóga og tilviljun ein réði því að önnur stóð uppi sem sigurvegar (ég ég ég ég ég ég ég!!) Það er hins vegar ánægjulegt að segja frá því að karlkyns kúnnarnir á 22 eru ekki haldnir þeirri þráhyggju að konur að tefla þurfi nauðsynlega á þeirra aðstoð að halda. Ekki að við höfum ekki fengið aðstöð - einhver staðar rétt eftir að seinni skákin hófst mætti Hörður og veitti okkur ómetanlegan styrk sem almenn klappstýra fyrir báða mótherja.
Um fjögurleytið eftir að seinni skákin endaði (ég ég ég ég ég ég ég!!) óðum við blóðpolla upp á aðra hæðina og tókum til við tjúttið. Sjaldan hafa þrjár manneskjur verið jafn jákvæðar á dansgólfinu. Pixies, Clash, Rolling Stones og Michael Jackson á vondum degi var lýsandi fyrir stemninguna. Hvenær var diskói eiginlega úthýst af 22? Við gerðum þó okkar besta og þegar ljósin voru kveikt var klukkan að verða sex og gamlar kellingar búnar að vera alltof lengi á djamminu. Þrátt fyrir ýmis freistandi tilboð þar sem í boði voru áframhaldandi partý og brennivín héldum við heim á leið. Vorum næstum því búnar að týna klappstýrunni okkar Herði sem hafði stungið af á klósettið á ögurstundu en endurheimtum hann og héldur gangandi heim á leið. Við gamla DV húsið fannst svo bíll og þurfti ég því ekki að labba alla leið heim (uh.. jibbí).
Gærdagurinn var síðan fullkomlega óinteresant og það eina markverða var að ég skellti mér í bíó - hugsanlega í fyrsta skipti á árinu. Við Skotta fórum að sjá Kill Bill Vol. 2 og þótti hin besta skemmtun. Og þannig var nú það.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Blogger bara farinn að blanda sér í kommentkerfin.

Auður sagði...

Sniðugt.
Takk fyrir gott kvöld, ég er næstum búin að jafna mig eftir tapið mikla og farin að plotta hefnd. Fallegar myndir!

Auður sagði...

En hey! Ég man ekki eftir neinum freistandi tilboðum um áframhaldandi eitt eða neitt! Þú hefur greinilega haldið þeim leyndum til að ná mér heim...

Ásta sagði...

"Hey stelpur viljiði koma í partý ég á brennivín" er auðvitað með betri tilboðum sem maður fær kl. 6 á morgnana.