miðvikudagur, maí 12, 2004

Jahá - í dag er fyrsti í Júróvisjón (eða Eurovision - eftir smekk hvers og eins) og ég hef skrafað glettilega lítið um það fyrirbæri hér. Eins og ég er áhugasöm. Í ár er sama súpan af mis gáfulegum/leiðinlegum/fyndum/lélegum/grátlegum/flippuðum lögum og alltaf. Meðalmennskan ræður í flestum tilfellum og hættan á að smitast af makedóníusyndróminu ógurlega eykst með hverjum degi. Ég hef hlustað samviskusamlega á öll lögin í keppnin og get með sanni sagt að ég hef ekki hugmynd um hvaða lag muni vinna. Dómgreindin er löngu flogin og sé ég fram á að ég muni taka ástfóstri við þau lög sem fá mig til að annað hvort brosa út í annað eða dilla tánum.

Hafandi það í huga er hér listi yfir helstu gimsteina Júrósvisjón keppninnar í ár - að mínu dómgreindarskerta mati:

1. Jari Sillanpää - Takes 2 to tango (Finnland). Já Finnland. Finnar eru víst mjög tangóelsk þjóð og hefur sú ástríða loksins skilað sér í keppnina. Loksins segi ég - hver man ekki eftir finnsku keppendum síðustu ára sem voru álíka skemmtilegir og upplífgandi og kvótaumræður á þingi? Svo er hann Jari miðaldra maður með vængi á bakinu sem syngur um djöfla og engla - gerist ekki betra.

2. Neiokõsõ - Tii (Eistland). Eitt af fáum lögum sem virkilega skera sig úr í keppninni. Svo finnst mér það einfaldlega skemmtilegt. Þarf ég að hafa ástæðu?Bosníski stuðboltinn Deen

3. On again...off again - Julie & Ludwig (Malta). Peppaðasta lag keppninnar (ef frá er talið framlag Sviss sem er of vont til að ég vilji hugsa um það). Ótrúlega glaðir keppendur með ótrúlega glaðlegt lag. Mögulega samið á sýrutrippi.

4. The image of you - Anjeza Shahini (Albania). Aumingja Albanir. Sem þjóð eiga þeir bágt - þeir hafa aldrei áður tekið þátt í Júróvisjón og þeir hafa fengið, af myndbandinu að dæma, 500 kr. til að spandera í framlag sitt. Mann langar mest til að klappa þeim.

5. Wild dances - Ruslana (Úkraína). Óttalega hress og kraftmikið lag sem gæti alveg unnið. Söngkonan er fögur snót með frekar óheppilegt nafn fyrir Íslandsmarkað.

6. Stronger every minute - Lisa Andreas (Kýpur). Voða sætt lag í talsverðum söngleikja/70s pop stíl. Afskaplega erfitt að láta sér líka illa við það.

Að auki: Danmörk, Bosnía, Grikkland - hommainnrásin. Að senda kyn- og klæðskiptinga er gimmik - meira að segja nokkuð "seif" gimmik því í þeim tilvikum er um leikhús að ræða - menn að leika hlutverk. Að senda unga karlmenn sem leika sér með kynferði sitt er að gangast upp í hinum rétta anda Júróvisjón sem er, þegar öllu er á botninn hvolft, gay gay gay. Nokkuð sem að Páll Óskar startaði og má alveg vera meira af.

Á ég svo eitthvað að vera að minnast á íslenska lagið? Nei er það nokkuð? Ég hef ekki hugmynd hvort ég ber rétt skynbragð á það - það er alltof stutt í keppnina og fyrr- og títtnefnt dómgreindarleysi hjálpar ekki upp á. Fæst orð bera minnsta ábyrgð.

Engin ummæli: