mánudagur, maí 17, 2004

Júrósvall aldarinnar loksins yfirstaðið. Mikið er gott að geta endurheimt kynni sín að rökrænni hugsun og eðlilegum geðsveiflum - a.m.k. þangað til að ári. Íslendingar lentu í 19. sæti og er það vel. Við höfum gott af því að lenda neðarlega svona við og við. Lækkar í okkur rostann sem á það til að þenjast óhóflega út í byrjun maí ár hvert. Austur-Evrópa/Miðjarðarhafið átti þessa keppni og einhver ógurlega hress lög flutt af klæðalitlum flytjendum lentu í efstu sætunum. Erum við annars ekki að klikka á þessu? Hvenær hafa íslenskir flytjendur eiginlega sýnt smá hold? Hefur súlastaðavelsæmið smitast yfir í aðra listgeira eða erum við svona spéhrædd frá náttúrunnar hendi? Ég get ekki séð að við höfum um neitt annað að velja; við verðum að fækka fötum í komandi keppnum - reyna að nappa gredduatkvæðunum - því ekki fáum við landamæraatkvæðin svo mikið er víst :D

Júróvisjónpartýið var eins og júróvisjónpartý eiga að vera. Alltof margir gestir í pínulítilli stofu að drekka í takt við stigin og gera grín að Gísla Marteini. Eftir keppnina var hrundið af stað heimatilbúnni karókíkeppni og tóku (svo til) allir gestir þátt af mikilli innlifun. Sigur úr býtum hafði Sigga Lára fyrir ómennska túlkun á Whitneysmellinum "I will always love you" sem verður seint leikin eftir og var það mál mann að hún væri vel að sigrinum komin. Verðlaunin voru ekki af verri endanum - spánýr geisladiskur með íslenska sigurjúróvisjónlaginu ásamt karókí útgáfu. Varð vinningshafa svo mikið um að hún sá sig tilneydda til að leggja sig af einskærri geðshræringu. Til allrar lukku tók einn partýgestanna það að sér að flytja lagið á hátt sem slagaði upp í frammistöðu Siggu.

Einhver skildi brúnt prjónavesti eftir heima hjá mér. Kannast einhver við það?

Engin ummæli: